Tryggvagata – listagata

Hjálmar, borgarfulltrú, Hjálmar Sveinsson,

Tryggvagata er að verða ein flottasta gata bæjarins. Búið er að steypa stórt torg við Tollhúsið sem teiknað var af Gísla Halldórssyni. Óhætt er að segja að hið magnaða mósaíkverk Gerðar Helgadóttur njóti sín afar vel þegar allir bílarnir eru farnir.

Það tók Gerði um tvö ár að vinna verk­ið, sem var sett upp á árunum 1972 og 1973. Gerður lést tveimur árum eftir að verkið var klárað, aðeins 47 ára göm­ul.

Þar sem áður var bílastæði verður mannlífstorg. Ef að líkum lætur munu meðal annars liststúdentar spranga um torgið með möppur undir handleggnum því til stendur að Listaháskóli Íslands verði þarna. Torgið er sólríkt og í skjóli fyrir norðanáttinni. Það verður mikill happafengur fyrir miðborgina að fá Listaháskólann í Tryggvagötuna

Undanfarið ár hafa borgin og Veitur unnið að endurgerð Tryggvagötu. „Líf­leg og fjöl­breyti­leg almenn­ings­rými“ og „aðl­að­andi borg­ar­brag­ur“ eru leið­ar­ljós við end­ur­gerðina. Mósaíkverkið verður lýst upp.

Endurnýting húsa

Hafnarhúsið er næsta hús. Þar er Listasafn Reykjavíkur til húsa. Borgin hefur nú keypt allt húsið. Það verður hús myndlistar. Nú er að fara af stað hugmyndavinna um nýtingu hússins og hvernig myndlistinni verður gert sem hæst undir höfði. Í húsinu verður meðal annars safn Nínu Tryggvadóttur, en á dögunum var skrifað undir samninga vegna höfðinglegrar gjafar Unu Dóru Copley, dóttur Nínu.

Næsta hús við Tryggvagötu, Grófarhúsið, verður hús orðlistarinnar. Þarna eru höfuðstöðvar Borgarbókasafnsins. Nú er verið að undirbúa arkitektasamkeppni um miklar umbætur á húsinu. Ætlunin er að safnið verði enn meira menningarhús, eins og bókasöfn hafa verið að þróast á Norðurlöndunum.

Tollhúsið, Hafnarhúsið og Grófarhúsið voru byggð sem vöruskemmur og skrifstofur á sínum tíma. Þau hafa smám saman gengið í endurnýjun lífdaga sinna. Sama má segja um Tryggvagötu sem var heldur grá, en mun nú hafa mikið aðdráttarafl.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 14. okt.