Helga Vala í eldhúsdagsumræðum

Ræða Helgu Völu Helgadóttur í eldhúsdagsumræðu sem fram fóru á Alþingi þann 8. júní 2022.

Virðulegur forseti – góðir landsmenn

 Það er vor og þá fyllumst við bjartsýni um framtíðina. Stúdentskollarnir fara á loft, yngstu börnin færast upp í grunnskóla, sumarleyfin á næsta leyti og síðast en ekki síst er leyfilegt að hittast, faðmast og hafa gaman.

 Já, við erum að læra upp á nýtt að hitta fólk utan kúlunnar og mikið er það skemmtilegt að finna fyrir hvert öðru, því þrátt fyrir allt þá er litróf mannlífsins bara býsna skemmtilegt.

 Við sem störfum á vettvangi stjórnmálanna megum aldrei missa sjónar á einmitt þessu. Litrófi mannlífsins og tilgangi starfa okkar við að rækta þann jarðveg sem mannlífið vex upp úr. Talað er um að hafa græna fingur þegar rækta á plöntur en ég er ekki frá því að rauðir fingur séu best til þess fallnir að rækta gróskufullt mannlífið því þeir taka lit sinn frá hjartanu. Þar finna þeir umhyggju og samkennd.

 Það þarf að hafa hjarta í stjórnmálum. Virkt og opið hjarta til að gera það besta mögulega fyrir íbúa þessa lands og jarðarinnar allrar og þrátt fyrir átökin sem birtast almenningi héðan úr þingsal þá bera störf okkar í sameiningu oft árangur og þá er gott að sjá að það var til einhvers að vinna hér langt fram eftir kvöldum við að reyna að leysa úr verkefnum líðandi stundar. Í upphafi síðasta kjörtímabils var kjörorðið „innviðir“. Því miður stöndum við enn frammi fyrir því að margir eru þeir orðnir býsna laskaðir.

 Heilbrigðiskerfið er hjartað sem verður að fá næringu. Hæstvirtur fjármálaráðherra, sem gegnt hefur því embætti nánast án hlés frá árinu 2013 ber mikla ábyrgð á því hvernig fjármunum skattgreiðenda hefur verið ráðstafað á þeim tæpum tíu árum og hverjir það eru sem þyngstu byrðarnar bera.

 Það eru ekki bara við í Samfylkingunni sem höfum ávarpað vanfjármögnun heilbrigðiskerfisins heldur sést það svart á hvítu í fjölda skýrslna; samanburðarskýrslu OECD ríkja, skýrslum McKinsey eða skýrslu ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðismál, hjúkrunarheimili eða annað.

 Heilbrigðiskerfið okkar er vanfjármagnað og hefur verið um langt árabil. Nú erum við að missa okkar besta starfsfólk út úr kerfinu, starfsfólk sem við höfum tekið þátt í að mennta, á sama tíma og viðvarandi mönnunarvandi er í heilbrigðiskerfinu. Heilbrigðisstarfsfólk getur einfaldlega ekki búið lengur við það skilningsleysi sem stjórnvöld hafa sýnt. Það er í alvöru ekki hægt að halda því fram hér fullum fetum að nóg sé gert þegar vandinn blasir við á hverjum degi.

 Það vantar hjúkrunarrými. Það vantar geðheilbrigðisúrræði. Það eru áralangir biðlistar eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu barna og fullorðinna og ráðherrar leyfa sér að halda því fram að fjármagn muni ekki leysa allan vanda.

 Virðulegur forseti – það er ekki náttúrulögmál að það ríki neyðarástand í heilbrigðiskerfinu. Það er pólísk ákvörðun að setja árum saman umtalsvert lægra hlutfall landsframleiðslu í heilbrigðiskerfið en frændríki okkar á Norðulöndum gera – en það að halda því fram að það bitni ekki á nauðsynlegri þjónustu við almenning - ber vott um afskaplega lítinn skilning á verkefninu. Við megum heldur ekki gleyma því að sökum smæðar okkar þá ætti að kosta hlutfallslega meira að reka þjónustu hér en á Norðurlöndunum.  

 Fjármálaáætlun næstu fimm ára sýnir að ríkisstjórnin hefur ekki í hyggju að sækja fjármagn þangað sem nóg er af því. Ofurarðgreiðslur stórfyrirtækja verða áfram ósnertar á meðan grunnþjónustan skerðist dag frá degi. Breiðu bökin gildna á sama tíma og mönnunarvandi, sem rekja má til vanfjármögnunar og skilningsleysis stjórnvalda á verkefninu, eykst. Framboð heilbrigðisþjónustu er ónógt, biðlistar of langir, verkefnin verða fyrir vikið þyngri og neyðin meiri. Þetta ástand snertir hvert einasta heimili í landinu og hverfur ekkert á meðan við bregðumst ekki við með verulega auknu fjárframlagi, ekki einu sinni heldur til næstu ára. Þegar ríkissjóður er svo í vanda eftir heimsfaraldur þurfum við að hafa ríkisstjórn sem þorir að sækja fé þangað sem það er að finna.

Virðulegur forseti. Ég vil ræða annað hjarta sem er sjálft lýðræðið og það hvernig við eflum það. Hæstvirtur forsætisráðherra talaði fyrir gagnsæi, trausti og samvinnu við upphaf síðasta kjörtímabils og um að byggja brú til að skapa samstöðu um hvernig leiða megi mál til lykta.

 Ég er henni sammála um að við þurfum í sameiningu að auka traust á stjórnmálum með meiri samvinnu en hún þarf þá að ganga í báðar áttir. Góðar tillögur stjórnarandstöðunnar hér á þingi þarf ekki að fella bara í þeim tilgangi að sýna vald sitt. Okkur gengur raunverulega gott eitt til þegar við sem dæmi leggjum fram tillögu um að sjúklingar eigi áheyrnarfulltrúa í stjórn Landspítala. Hvernig gat það verið vond hugmynd að leyfa slíkri rödd að heyrast við stjórnarborðið? Hvernig gat það verið vond hugmynd að samþykkja Rannsóknarnefnd Alþingis um sölu á Íslandsbanka? Hvernig gat það verið vond hugmynd að fjármagna sálfræðisþjónustu eða að tryggja að lífeyrir hækki í takt við lífskjarasamninga? Okkur gengur raunverulega gott eitt til. Ég held að þetta skaði okkar pólitísku menningu og minnki traust á okkar störf. En það er fleira sem minnkar traust á stjórnmálum.

 Henry Alexander Henrysson siðfræðingur fjallaði á dögunum um þá staðhæfingu hæstvirts forsætisráðherra að gagnsæi auki traust. Sagði hann, með leyfi forseta að gagnsæi væri raunar andstæðan við traust. Við treystum ekki fólki þegar við krefjumst þess að hafa ítarlegar upplýsingar um allar athafnir þess og ákvarðanatöku. Gagnsæi getur vissulega komið við sögu þegar fólk reynir að efla trúverðugleika sinn, en traustið byggir - eftir sem áður - fyrst og fremst á því að fólk sýni skilning á eðli þess hlutverks sem það gegnir og hrökkvi ekki í kút þegar því er bent á þær takmarkanir sem hlutverkið kann að leiða af sér.

Þar sem ríkir traust, þarf ekki ótakmarkað gagnsæi. Við þurfum hins vegar átak í að auka traust á stjórnmálum. Það hefur ítrekað beðið hnekki eftir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hóf sinn leiðangur og það breytist ekki nema með því að fólk sem fer með völd viðurkenni og skilji eðli þess hlutverks sem það gegnir.

Góðir landsmenn – gleðilegt sumar