Freyja Steingrímsdóttir

Ég heiti Freyja Steingrímsdóttir og býð fram krafta mína í flokksstjórn Samfylkingarinnar.

Samfylkingin nýtur reyndar krafta minna á fleiri sviðum, en ég hef gegnt stöðu aðstoðarmanns formanns flokksins síðastliðin tvö ár. Ég er auk þess varaformaður fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík og hef unnið sem ráðgjafi fyrir flokkinn í síðustu þremur kosningum.

Sem helsti pólitíski ráðgjafi formannsins lifi ég og hrærist í jafnaðarmannahugsjóninni og framkvæmd hennar bæði í flokksstarfinu og á Alþingi.

Ég er 31 árs stjórnmálafræðingur, bý í miðbæ Reykjavíkur en ólst upp í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu. Hjartað mitt slær þó mest fyrir meginland Evrópu þar sem ég bjó í næstum fimm ár í höfuðborg Evrópusambandsins, Brussel. 

Á meginlandinu starfaði ég í kosningateymi evrópska jafnaðarmannaflokksins fyrir Evrópuþingkosningarnar 2014, vann að upplýsingamálum fyrir Eftirlitsstofnun EFTA og í þrjú ár vann ég sem ráðgjafi og yfirmaður hjá Evrópuskrifstofu Indigo Strategies, sem sérhæfði sig í herferðum fyrir verkalýðshreyfingar, mannréttindasamtök og stjórnmálaflokka. Ég vann einnig um tímabundið sem verkefna- og upplýsingastjóri hjá Festu, miðstöð um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja eftir að ég flutti heim. 

Ég hef sinnt margvíslegu félagsstarfi í gegnum árin, fyrir Unga jafnaðarmenn, Stúdentaráð, Unga Evrópusinna og Já Ísland svo eitthvað sé nefnt. Ég hef einnig fengið birtar fræðigreinar í ritrýndum tímaritum og unnið til sex verðlauna (Polaris Awards EAPC) fyrir herferðir sem ég hef stýrt fyrir evrópsku verkalýðshreyfinguna.

Helstu áhugamál mín eru norræn og evrópsk stjórnmál, svona fyrir utan þau íslensku, innanhússhönnun, matargerð og ferðalög þegar þau eru í boði.

Ég óska eftir ykkar stuðningi við framboð mitt í flokksstjórn.