Frumvarp um lækkun kosningaaldurs

Lagt hefur verið fram frumvarp um lækkun kosningaaldurs og verði frumvarpið að lögum mun hann miðast við 16 ár í stað 18 ára en um níu þúsund kjósendur munu koma til með að bætast við kjörskrá í kjölfarið. Logi Einarsson er flutningsmaður frumvarpsins ásamt 14 öðrum þingmönnum úr öllum flokkum nema einum og má því segja að stuðningur við frumvarpið sé þverpólitískur.

Samfylkingin var fyrst flokka til að álykta um málið á landsfundi sínum árið 2015. Í landsfundarsamþykkt flokksins um lýðræði og mannréttindi segir:

„Samfylkingin vill styðja ungt fólk til aukinnar lýðræðislegrar þátttöku. Undanfarin ár hefur ungt fólk fjarlægst stjórnmálalega umræðu í miklum mæli og sést það skýrt t.a.m. á rýni í tölfræði um kosningaþátttöku síðustu ára. Lýðræðisleg þátttaka þarf að dreifast sem jafnast á hvert svið samfélagsins, eftir aldri, stétt eða stöðu, búsetu o.s.frv. og byggjast að sem mestu leyti á hispurslausri og uppbyggilegri gagnrýni á það samfélag sem við búum í. Að einhverju leyti er hægt að útskýra áhugaleysi og litla þátttöku ungs fólks með óaðgengilegri og erfiðri umræðuhefð þar sem stjórnmál eru sett fram sem spillt og mannskemmandi.

Til að efla lýðræðisvitund ungs fólks leggur Samfylkingin áherslu á eftirfarandi:

  • hafin verði vinna sem miði að því að lækka kosningaaldur í 16 ár en þó þannig að aldurstakmark kjörgengis haldist óbreytt (18 ár). „

Það er fagnaðarefni að frumvarpið sé komið fram og njóti stuðnings úr öllum flokkum. Vonandi verður það að lögum í vor og að 16 og 17 ára gamalt fólk fái að kjósa í fyrsta sinn í sveitarstjórnarkosningum á næsta ári.