Fullkomin samstaða um Loga

Landsfundur Samfylkingarinnar var settur á Hotel Reykjavík Natura kl 15:00 í dag.

Logi Már Einarsson var einn í framboði til formanns og hlaut hann hvorki meira né minna en öll greidd atkvæði í kjörinu. Kjörið endurspeglar ánægju og traust flokksfélaga til hans og hans starfa í þágu flokksins.

Logi setti tóninn með hárbeittri opnunarræðu; „Vopnaflutningur til stríðshrjáðra landa var heimilaður á sama tíma og framlög til þróunarmála og móttaka flóttamanna eru langt frá eðlilegum viðmiðum. Þingið hefur ekki bönd á sjálftöku þingmanna; birta upplýsingar illa, seint eða alls ekki”, sagði hann í ræðunni, „skýrslum er leynt og stjórnsýslan stenst illa skoðun. Og loks situr dómsmálaráðherra brött,  þrátt fyrir að fengið á sig hæstaréttardóm vegna skipan heils nýs dómsstigs. Þessi vinnubrögð og valdhroki verða ekki á okkar vakt. Þau eru hluti af gamaldags stjórnmálamenningu sem er löngu tímabært að kveðja.”

Áður en hann gaf ræðustólinn eftir til borgarstjóra hafði hann þetta að segja um kosningarnar í vor „Við erum mætt aftur til leiks, ætlum okkur góðan árangur í sveitarstjórnarkosningum í vor og verða aftur sá burðarflokkur í íslenskum stjórnmálum sem almenningur þarfnast.”

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, tók þá við og kynnti málefnaáherslur Reykjavíkurborgar fyrir fundargestum; „Samfylkingin er á fljúgandi ferð; við erum á leiðinni – og við erum að koma til baka; stærri og sterkari samfylking jafnaðarmanna; kjölfestuflokkur sem rúmar alls konar sjónarmið – frá miðju og til vinstri, eins og vera ber – og skapar raunverulegt, öflugt mótvægi við harðasta hægrið á Íslandi.”

Dagskrá heldur áfram eftir kvöldmatarhlé þar sem málefnavinna fer fram, varaformannsframboð eru kynnt og kjöri varaformanns að lýst kl 22:00.

Á morgun, laugardag, er dagskráin ekki síður spennandi – þá verða sveitarstjórnarmálin og kosningarnar í vor í brennidepli, ný stefna Samfylkingarinnar í tengslum við #metoo verður kynnt, stjórnmálaályktanir afgreiddar, Jóhanna Sigurðardóttir ávarpar hópinn og endurkjörinn formaður heldur stefnuræðu sína.

Opnunarræða Loga Einarssonar
Ávarp Dags B. Eggertssonar