Fundarsköp landsfundar Samfylkingarinnar

1.0. Upphaf landsfundar

2.0. Stjórn landsfundar

3.0. Nefndir

4.0. Umræður

5.0. Tillögur, lagabreytingar og atkvæðagreiðsla

6.0. Kosningar

7.0. Afgreiðsla og breyting fundarskapa

1.0. Upphaf landsfundar

1.1. Formaður Samfylkingarinnar setur landsfund og stjórnar honum þar til fundarstjóri hefur verið kosinn. Skal formaður Samfylkingarinnar standa fyrir kosningu hans.

1.2. Ritari Samfylkingarinnar og ritari framkvæmdastjórnar hafa umsjón með ritun fundargerðar landsfundar og skal formaður skipa tvo ritara úr hópi landsfundarfulltrúa og/eða starfsmanna flokksins þeim til aðstoðar ef þurfa þykir.

1.3. Þegar eftir að landsfundur hefur verið settur skal fara fram atkvæðagreiðsla um inntöku nýrra aðildarfélaga.

1.5. Framkvæmdastjórn undirbýr landsfund og skal gera tillögu um embættismenn landsfundar, skipan uppstillinganefndar og kjörstjórnar sem kjósa skal við upphaf landsfundar.

2.0. Stjórn landsfundar

2.1. Að lokinni inntöku nýrra félaga skal kjósa fundarstjóra, 1. varafundarstjóra og a.m.k. 2. varafundarstjóra.

Fyrst skal kjósa fundarstjóra sem gengst fyrir kosningu varafundarstjóra. Rétt kjörinn fundarstjóri þarf að hljóta meira en helming greiddra atkvæða þeirra sem á fundi eru. Verði þeim atkvæðafjölda eigi náð við fyrstu kosningu skal kosið að nýju um þau tvö sem flest atkvæði hlutu í fyrri umferð og ræður hlutkesti ef þau sem til greina koma hafa hlotið jafnmörg atkvæði við fyrri umferð. Verður það þeirra fundarstjóri sem fleiri atkvæði fær þá.

Fái bæði jafnmörg atkvæði ræður hlutkesti hvort verður fundarstjóri. Sömu reglu skal fylgt við kosningu varafundarstjóra.

Minnst 10 landsfundarfulltrúar geta skriflega krafist leynilegrar atkvæðagreiðslu við kosningu fundarstjóra.

2.2. Fundarstjóri stjórnar fundi og sér um að allt fari fram með góðri reglu, tekur við öllum erindum til landsfundarins og skýrir frá þeim og dreifir til landsfundarfulltrúa.

2.3. Vilji fundarstjóri taka þátt í umræðum frekar en fundarstjórastaða krefur þá víkur hann fundarstjórasæti, en varafundarstjóri tekur forsæti á meðan.

2.4. Hlutverk ritara er að halda gerðarbók undir umsjón fundarstjóra og skal í henni getið allra mála, er rædd eru á fundum og úrslita þeirra.

Ritarar skrá atkvæði við atkvæðagreiðslur og kosningar.

Sömuleiðis sjá þeir með fundarstjóra um að ályktanir séu skrásettar og áritar fundarstjórinn eitt eintak hverrar ályktunar sem frumheimild.

2.5. Fundarstjóri skipar fólk til að annast dreifingu atkvæðaseðla.

Fundarstjóri skipar teljara úr hópi landsfundarfulltrúa og/eða starfsmanna svo sem þykir þurfa á hverjum tíma.

2.6. Landsfundur er opinn öllum félögum í Samfylkingunni og aðildarfélögum hennar. Þegar atkvæðagreiðslur fara fram, er heimilt að takmarka aðgang að fundarsal landsfundar við landsfundarfulltrúa, starfsmenn landsfundar og starfslið fundarhússins.

2.7. Landsfund skal halda í heyranda hljóði. Þó skal umræða um ákveðin mál fara fram fyrir luktum dyrum, ef tillaga þess efnis hlýtur meira en helming greiddra atkvæða. Heimilt er að hljóðrita allt talað orð á landsfundi. Upptökurnar skulu varðveittar þar til fundargerð landsfundar og samþykktir hafa verið gefnar út.

3.0. Nefndir

3.1. Á landsfundum starfar dagskrárnefnd sem skipuð er formanni, varaformanni og framkvæmdastjóra flokksins auk fundarstjóra landsfundarins og varafundarstjórum.

Forfallist formaður eða varaformaður tilnefnir framkvæmdastjórn fulltrúa úr sínum hópi í dagskrárnefndina.

3.2. Landsfundurinn stofnar aðrar nefndir á hvaða stigi máls sem er, gefist tilefni til. Sé það gert áður en umræðum er lokið, skal umræðum frestað.

3.3. Nefndir skili skriflegu áliti sínu til landsfundarins og skal því dreift til landsfundarfulltrúa.

Sé ekki eining um niðurstöðu nefndar geta þau sem að séráliti standa skipað sér frummælanda sem hefur sama rétt og frummælandi meirihluta við umræður á fundum, enda sé séráliti skilað skriflega og það stutt skriflega af ekki færri en 9 landsfundarfulltrúum.

4.0. Umræður

4.1. Hver landsfundarfulltrúi sem taka vill til máls skal óska heimildar fundarstjóra samkvæmt þeim reglum sem fundarstjóri ákveður. Ef tveir eða fleiri landsfundarfulltrúar kveða sér hljóðs samtímis ákveður fundarstjóri í hvaða röð þeir tala.

4.2. Landsfundarfulltrúi skal ávallt mæla úr ræðustól og jafnan víkja ræðu sinni til fundarstjóra og fundarins.

4.3. Formaður framkvæmdastjórnar má taka til máls eins oft í umræðum um skýrslu framkvæmdastjórnar og hann óskar.

Frummælendur meiri- eða minnihluta nefndar mega taka til máls þrisvar sinnum um málefni það er þeir flytja, að hámarki 5 mín. í senn nema annað sé samþykkt sérstaklega á fundinum.

Aðrir landsfundarfulltrúar mega ekki tala oftar en tvisvar við sömu umræðu um sama mál og í 3 mínútur í senn nema annað sé samþykkt sérstaklega á fundinum.

Þó er jafnan heimilt að gera stutta athugasemd um atkvæðagreiðslu, fundarstjórn eða fundarsköp.

Tillöguflytjanda er heimilt að taka til máls í lok umræðu um viðkomandi tillögu, þó ekki lengur en í 2 mínútur. Regla þessi gildir um einn einstakling úr hópi tillöguflytjenda séu tillöguflytjendur fleiri en einn nema annað sé samþykkt sérstaklega á fundinum.

4.4. Ef fundarstjóri telur umræðu dragast úr hófi fram getur hann lagt til að ræðutími frummælanda meiri- og/eða minnihluta nefndar verði styttur.

Þá getur fundarstjóri hvenær sem er lagt til að umræðum skuli lokið á ákveðnum tíma.

Landsfundurinn afgreiðir tillögur fundarstjóra í þessu efni umræðulaust.

Landsfundarfulltrúar geta borið fram slíka tillögu enda sé hún skriflega studd með undirritun ekki færri en 10 landsfundarfulltrúa. Skal tillagan afgreidd umræðulaust.

5.0. Tillögur, lagabreytingar og atkvæðagreiðsla

5.1. Engar tillögur um mál á landsfundi er hægt að bera upp til atkvæða nema þeim hafi verið dreift skriflega til landsfundarfulltrúa. Í öllum málum samkvæmt kafla þessum ræður einfaldur meirihluti atkvæða nema lög Samfylkingarinnar eða fundarsköp þessi mæli fyrir á annan veg.

5.2. Um þau mál sem berast landsfundi skulu fara fram tvær umræður. Við fyrri umræðu skal gera grein fyrir tillögum og leggja fram og gera grein fyrir tillögum til breytinga á þeim ef einhverjar eru. Að svo búnu skal öllum tillögum vísað til viðeigandi málefnanefndar.

5.3. Drög að ályktun eða tillaga sem málefnanefnd á landsfundi sendir frá sér til síðari umræðu telst ekki breytingartillaga heldur aðaltillaga og samhliða teljast allar tillögur úr fyrri umræðu niður fallnar.

Við síðari umræðu er landsfundarfulltrúum heimilt í samræmi við gr.5.5. að flytja breytingatillögur við drög að ályktun eða tillögu málefnanefndar.

Við síðari umræðu skal fundarstjóri bera tillögur upp í þeirri röð sem hann ákveður.

Séu fleiri en ein tillaga í sama máli skal þó fyrst bera upp þá tillögu sem lengst gengur.

5.4. Undir liðnum önnur mál er landsfundarfulltrúum heimilt að taka upp hvert það mál sem þeir óska eftir umræðu um, önnur en þau sem þegar hafa hlotið afgreiðslu landsfundar. Ekki er þeim þó undir þessum lið heimilt að bera fram tillögur til ályktunar um annað en að fela stjórn/framkvæmdastjórn og/eða formanni Samfylkingarinnar að vinna að tilteknum verkefnum eða málefnum fyrir flokksstjórnarfundi eða milli landsfunda.

5.5. Allar tillögur sem bornar eru fram skulu vera skriflegar og undirritaðar af tillöguflytjendum. Séu þær fluttar af öðrum en formanni, stjórn eða framkvæmdastjórn skulu þær skriflega studdar af ekki færri en 9 landsfundarfulltrúum að tillöguflytjendum meðtöldum.

Ekki er heimilt að taka tillögu til umræðu fyrr en fundarstjóri hefur lýst henni. Komi upp ágreiningur um í hvaða nefnd ákveðin tillaga skuli rædd skal fundarstjóri leysa úr þeim ágreiningi með úrskurði.

5.6. Séu fleiri en einn flytjandi að tillögu getur hver og einn þeirra dregið sig til baka af tillögunni í heyranda hljóði.

Fari svo að tillaga sé í heild sinni dregin til baka, getur hver sem er úr hópi landsfundarfulltrúa gert slíka tillögu að sinni í heyranda hljóði á sama fundi og undirritað hana síðan til staðfestingar, enda sé aflað stuðnings úr hópi landsfundarfulltrúa við hana að nýju sbr. gr. 5.5.

5.7. Ákvæði greinar 5.6. gilda ekki um tillögur þær sem tilskilinn stuðning þarf skv. fundarsköpum þessum.

5.8. Efnislegar tillögur eru þessar:

1) Aðaltillaga

2) Breytingartillaga

3) Viðaukatillaga

5.9. Við atkvæðagreiðslu skal fyrst bera upp breytingartillögu við aðaltillögu. Síðan skal bera upp aðaltillögu með áorðnum breytingum hafi breytingartillögur verið samþykktar. Að öðrum kosti skal bera upp aðaltillögu í upphaflegri mynd. Þá skal bera upp viðaukatillögur.

5.10. Þær breytingartillögur sem lengra ganga skal bera upp á undan þeim sem ganga skemur. Breytingartillögu sem kollvarpar eða breytir aðaltilgangi annarrar tillögu eða sem varðar önnur efnisatriði en tillaga hefur verið gerð um breytingu á, má fundarstjóri ekki taka til greina en því áliti sínu skal fundarstjóri lýsa fyrir fundi. Til að breytingatillaga nái fram að ganga þarf hún að hljóta sama fjölda atkvæða eins og aðaltillagan þarf til þess að teljast samþykkt.

5.11. Forgangstillögur eru í þessari röð:

1) Tillaga um að ganga þegar til atkvæða, sbr. þó grein 4.5.

2) Tillaga um að vísa máli frá.

3) Tillaga um að taka fyrir næsta mál á dagskrá.

4) Tillaga um að fresta máli.

5) Tillaga um að vísa máli til annars valds.

Tillögur undir 1. tl. má ekki ræða.

Um tillögur undir 2., 3. og 4. tl. má gera stuttar athugasemdir.

Um tillögur undir 5. tl. má gera stuttar athugasemdir en um málið sjálft gilda sömu reglur og um önnur efnisleg mál sem koma fyrir landsfundinn.

5.12. Fundarstjóra er heimilt að bera tillögu upp í tveimur eða fleiri liðum en þó því aðeins að hver liður sé sjálfstæður og að skiptingin geri tillöguna ekki óljósa.

5.13. Tillögu, sem hefur verið felld, má ekki bera upp á sama fundi.

5.14. Atkvæðagreiðsla um tillögur fer fram með handauppréttingu. Leynileg atkvæðagreiðsla fer fram ef þess er óskað skriflega og tillagan skriflega studd af minnst 9 landsfundarfulltrúum. Atkvæðagreiðslur við nafnakall eru ekki heimilar. Heimilt er að viðhafa atkvæðagreiðslur með rafrænum hætti. Atkvæðaseðlar eru þá vistaðir á tölvu og atkvæði greidd með þar til gerðum búnaði. Meginreglur fundarskapa þessara gilda um atkvæðagreiðsluna eftir því sem við á.

5.15. Engar atkvæðagreiðslur geta farið fram um tillögur nema á fundi sé staddur minnst helmingur landsfundarfulltrúa. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er atkvæðagreiðslan lögmæt með þeim landsfundarfulltrúum sem mættir eru til fundar, hafi fundarstjóri tiltekið og tilkynnt sérstakan tíma fyrir viðkomandi atkvæðagreiðslu með að a.m.k. 30 mínútna fyrirvara.

5.16. Fundarstjóri skipar teljara til talningar atkvæða úr hópi landsfundarfulltrúa og/eða starfsmanna, svo marga sem henta þykir. 5.17. Breyting á lögum Samfylkingarinnar telst ekki samþykkt nema hún hljóti 2/3 atkvæða á fundi.

6.0. Kosningar

6.1. Kosningar í trúnaðarstöður á vegum Samfylkingarinnar skulu vera leynilegar. Heimilt er að viðhafa kosningar með rafrænum hætti. Kjörseðlar eru þá vistaðir á tölvu og atkvæði greidd með þar til gerðum búnaði. Meginreglur fundarskapa þessara gilda um rafrænar kosningar eftir því sem við á.

6.2. Í öllum málum ræður einfaldur meirihluti nema annað sé tekið fram í fundarsköpum þessum eða lögum Samfylkingarinnar.

6.3. Komi ekki fram tillögur um fleiri en kjósa skal, skulu þau sjálfkjörin.

6.4. Atkvæðaseðill er ógildur, ef á honum eru nöfn einstaklinga, sem ekki eru í kjöri, eða ef ekki eru greidd atkvæði jafnmörgum og kjósa á. Auður seðill telst ekki til greiddra atkvæða en gefa skal upp fjölda auðra seðla og ógildra þegar kosningu er lýst. Sé viðhöfð rafræn atkvæðagreiðsla er heimilt að gera ráð fyrir því að viðeigandi tölvubúnaður sé þannig úr garði gerður að ekki sé hægt að gera kjörseðil ógildan.

6.5. Við atkvæðagreiðslu fer hver landsfundarfulltrúi með eitt atkvæði.

6.6. Fundarstjóri skal gera landsfundarfulltrúum viðvart með tilkynningu áður en kosningar hefjast. Eftir hæfilegan umþóttunartíma, tilkynnir fundarstjóri að dreifing atkvæðaseðla hefjist og um leið ber starfsmönnum að sjá til þess að enginn gangi út eða inn í fundarsalinn þar til fundarstjóri hefur lýst yfir að kosningu sé lokið, atkvæðaseðlum safnað saman og athugasemdir ekki komið fram um það.

Fari kosningar eða atkvæðagreiðslur fram með rafrænum hætti skal fundarstjóri með sama hætti tilkynna að nú muni kosningar hefjast og gefa upp þann tíma sem áætlað er að kosning muni taka. Að svo búnu skal aðgangur að rafrænum kosningabúnaði opnaður og kosningar hefjast. Kosning skal að minnsta kosti standa jafnlengi og fundarstjóri hefur áætlað. 10 mínútum áður en kosningu líkur samkvæmt ákvörðun fundarstjóra skal tilkynna fundinum þá ákvörðun. Að liðnum þeim fresti skal aðgangi að rafrænum kosningabúnaði lokað og lýsir þá fundarstjóri að kosningu sé lokið.

6.7. Um leið og talningu atkvæðaseðla við hverja atkvæðagreiðslu er lokið og niðurstaða talningar færð á skýrslu til fundarstjóra sem allir talningamenn hafa staðfest sem rétta, skulu atkvæðaseðlar innsiglaðir í traustan kassa eða varðveittir í lokuðum gagnagrunni hafi kosning verið rafræn og geymast þar til fundarstjóri hefur tilkynnt landsfundarfulltrúum úrslit.

Komi ekki fram skrifleg krafa minnst 10 landsfundarfulltrúa um endurtalningu atkvæða þegar eftir tilkynningu fundarstjóra, verður krafa um endurtalningu ekki tekin til greina.

Fyrir lok landsfundarins skulu atkvæðaseðlar eyðilagðir eða tölvugögnum eytt undir umsjón fundarstjóra.

6.8. Kjörgeng í trúnaðarstöður Samfylkingarinnar eru allir félagar í Samfylkingunni, 18 ára og eldri. Tilnefningar skulu vera skriflegar og studdar með undirritun a.m.k. 9 landsfundarfulltrúa. Skriflegar stuðningsyfirlýsingar þurfa þó ekki að fylgja tillögum uppstillingarnefndar.

Sé á landsfundi stungið upp á fólki í trúnaðarstöður sem eigi situr fundinn, verða slíkar tilnefningar eigi teknar til greina nema fyrir liggi staðfest yfirlýsing um að viðkomandi taki kjöri.

6.9. Kjörstjórn tekur við framboðum og tilnefningum til allra starfa sem kjósa þarf til á landsfundi.

Kjörstjórn afhendir uppstillingarnefnd öll framboð og allar tilnefningar og skal uppstillingarnefnd sjá til þess að framboð og tilnefningar fáist til allra starfa sem kjósa á til, leitar eftir samþykki þeirra sem tilnefnd eru og afhendir kjörstjórn endanlegan lista um framboð og tilnefningar. Uppstillingarnefnd er heimilt að stilla upp fleiri einstaklingum í framboð en sem tilnefndir hafa verið eða boðið sig fram enda liggi formlegt samþykki þeirra fyrir.

Kjörstjórn útbýr kjörseðla fyrir allar kosningar í samræmi við lista uppstillingarnefndar og skulu þeir afhentir atkvæðisbærum landsfundarfulltrúum við upphaf kosninga.

7.0. Afgreiðsla og breyting fundarskapa

7.1. Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður um afgreiðslu fundarskapa.

7.2. Komi fram tillögur um fundarstjórn eða meðferð mála sem þessi fundarsköp ná ekki til, þá ræður einfaldur meirihluti enda sé fundur löglegur.