Guðmundur Andri Thorsson í eldhúsdagsumræðum Alþingis

Eldhúsdagsumræður Alþingis fóru fram 29. maí. Guðmundur Andri Thorsson tók til máls í annari umferð.

Virðulegi forseti. „Af jarðarinnar hálfu /  byrja allir dagar fallega … “

Með þessum orðum kvaddi Pétur Gunnarsson sér hljóðs í íslenskum bókmenntum í ljóðabókinni Splunkunýr dagur, og oft hefur manni verið hugsað til þessara fallegu upphafsorða að undanförnu, ekki síst þegar maður hefur verið árrisull og notið sólar og fuglasöngs, gróðurilms og sjávarniðs og annarra dásemda sem jörðin gefur okkur og við göngum út frá sem vísum.

„Af Jarðarinnar hálfu  byrja allir dagar fallega“ en svo fara mennirnir á fætur og mæta til vinnu og fara að róta og grafa og böðlast. Þannig getur þetta ekki gengið lengur, það sjáum við öll. Við vitum að við þurfum að læra að aðlagast lífinu á jörðinni alveg upp á nýtt, temja okkur nýja siði og nýja sýn. Maðurinn verður að hætta að ímynda sér að hann sé herra jarðarinnar og hætta að haga sér sem perri jarðarinnar.

Ríkisstjórnin hefur vissulega sýnt viðleitni í þessa átt en þó finnst manni að ekki sé gengið nógu ákveðnum skrefum í eina átt. Við getum nefnilega ekki gengið bæði til vinstri og hægri í einu – við förum bara í aðra áttina í senn, eða stöndum í stað. Annaðhvort höfum við íhaldssama og auðhyggjusinnaða hægri stjórn hagsmunagæslunnar eða framsækna og frjálslynda vinstri stjórn sem hefur almannahag að leiðarljósi. Það er ekki hægt að vera hvort tveggja. Í loftslagsmálunum erum við hætt að heyra nefnt árið 2030, rétt eins og það sé löngu liðið, og það er langur vegur frá því að við séum nærri því að uppfylla skuldbindingar okkar í Kyoto-bókuninni.

Við þurfum að fá róttækari og beittari aðgerðaáætlun í loftslagsmálum en ríkisstjórnin hefur sett fram. Endurheimt votlendis er frábær, og skógrækt þar sem hún á við, en við þurfum að vera miklu markvissari í því að draga úr losun. Við verðum að miða alla mannlega starfsemi við raunverulegan kostnað sem af henni hlýst – fyrir lífið á jörðinni. Við þurfum að gera sáttmála þvert yfir höf og lönd og þá dugir ekki heimsmynd músarholunnar, þrætugirnin og allt fyrir ekkert hugsunin heldur þurfa samfélögin að taka höndum saman. Í þessum málum þurfum við að hætta að hugsa sem Íslendingar og hugsa sem jarðlingar.

Við í Samfylkingunni höfum lagt fram þingsályktunartillögu um grænan samfélagssáttmála sem á að taka til allra sviða þjóðlífsins. Græni þráðurinn í tillögunni er sjálfbær þróun, og þá er ekki átt við sjálfbærni sem orðaskraut um rányrkju, heldur orð sem lýsir raunverulegu hringrásarhagkerfi með umhverfistengdri hagstjórn og fjárlagagerð þar sem tekin verða markviss og raunveruleg skref í átt að því að tvö komma fimm prósent af vergri þjóðarframleiðslu renni í aðgerðir stjórnvalda og atvinnulífs í umhverfismálum, eins og Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna telur nauðsynlegt. Við viljum að markaðurinn sé virkjaður og honum stýrt með hagrænum hvötum og kröfum, framleiðsluferlum sé breytt og neytendur vaktir til vitundar. Við viljum gera breytingar á skattkerfinu, í samgöngumálum, húsnæðismálum, matvælaframleiðslu og auðlindanýtingu; við viljum hraða orkuskiptum, draga úr útstreymi frá mengandi stóriðju og hækka kolefnisgjald og alls staðar hafa sjálfbærni að leiðarljósi.

Því að „af hálfu jarðarinnar byrja allir dagar fallega, þolinmóð snýst hún og snýst,“ eins og Pétur Gunnarsson lýsir svo fallega í ljóðinu. Við eigum að nýta óendanlegt ríkidæmi hennar með ást og virðingu en ekki af meðvitundarleysi og frekju.