Guðni Rúnar Jónasson

Kæru félagar

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar.

Ég hef verið félagi í Samfylkingunni síðastliðin tíu ár. Á þeim tíma hef ég gegnt hinum ýmsu störfum innan flokksins. Á árunum 2011 til 2015 starfaði ég sem framkvæmdarstjóri Ungra jafnaðarmanna og einnig sem almennur skrifstofumaður á skrifstofu Samfylkingarinnar. 

Síðustu árum hef ég varið í að mennta mig en ég lauk BS námi í umhverfisskipulagsfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2018 og legg nú stund á meistaranám í skipulagsfræði við sömu stofnun.Ástæða þess að ég býð fram krafta mína er að ég tel reynslu mína af starfi innan flokksins geti komið honum til góða. Ég býð mig fram því ég tel nauðsynlegt að halda áfram því gríðarlega öfluga verki að byggja upp flokkinn okkar. Forysta flokksins hefur unnið kraftaverk undanfarin ár við að reisa flokkinn við, því verki er ekki lokið og ég hef hug á að taka þátt. Aðildarfélög eru að vakna til lífsins eftir dvala og áhugi ungs fólks á jafnaðarstefnunni er að aukast í samfélaginu, að þessu vil ég hlúa. 

Reynslan af COVID faraldrinum hefur eflt nýsköpun í innri starfsemi flokksins. Landsfundurinn okkar er dæmi um það. Mér finnst mikilvægt að við nýtum reynsluna af Covid til þess að gera innra starfið aðgengilegra og rafrænna, þannig tel ég að við getum gert öllum kleift að taka þátt í flokknum okkar óháð búsetu og aðstæðum. Einnig tel ég nauðsynlegt að taka reglur flokksins um framboð og prófkjör til skoðunar.

Kæru félagar og vinir ég óska eftir ykkar stuðningi við framboð mitt í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar.