Heiða Björg Hilmisdóttir

Síðustu ár hafa verið bæði krefjandi og gjöful fyrir flokkinn okkar. Með samstöðu og sameiginlegu átaki höfum við reist flokkinn við og stefnum á að leiða ríkisstjórn að loknum kosningunum að ári. Samfylkingarfólk situr við stjórnvölinn í sveitarfélögum sem telja meirihluta landsmanna. Það hefur verið mér ánægja að taka virkan þátt í forystu jafnaðarmanna sem varaformaður Samfylkingarinnar síðustu ár, og ég óska eftir stuðningi ykkar til að gegna því mikilvæga embætti áfram.

Ég er talskona samvinnu í stjórnmálum. Nánast óháð hve góðum árangri Samfylkingin nær í næstu þingkosningum stefnir í flókna stjórnarmyndun. Þá verður verðmætt að geta horft til Reykjavíkur þar sem við höfum starfað í meirihluta fjögurra ólíkra flokka með góðum árangri. Þá er fjöldi Samfylkingarfólks þátttakendur í allskyns samstarfi og meirihlutastjórnum vítt og breytt um landið, og mikilvægt að verk okkar og áherslur séu áberandi á vettvangi flokksins.  

Hjarta flokksins slær fyrst og fremst í grasrótinni.  Ég hóf þátttöku í gegnum  Kvennahreyfinguna og sem varaformaður fylltist ég stolti þegar ég upplifði kraftinn og seigluna í grasrót flokksins þegar á móti blés. Þetta er hreyfingin sem okkur þykir öllum svo vænt um. Hreyfing hversdagshetja, dugnaðarforka og fólks sem brennur af hjartans lyst fyrir réttlátu og grænu samfélagi, fyrir okkur öll. Samfylkingin á rætur í sígildri jafnaðarstefnu, hreyfingu sem á um sumt glæsta sögu – og byggir á hugsjónum jafnaðar sem áfram eiga ríkt erindi við samtímann. Það er fyrir þessa hreyfingu jafnaðarfólks sem ég býð fram krafta mína til að gegna áfram hlutverki varaformanns. Ég er til þjónustu reiðubúin.