Helga Vala Helgadóttir

Kæru flokkssystkin 

Mig dreymir um sterkari Samfylkingu, þar sem við leggjum okkur fram um að nýta krafta allra okkar félaga vítt og breitt um landið í þágu jafnaðarstefnunnar.

Varaformaður ber ábyrgð á innra starfi og ég er með tímasetta áætlun sem ég mun framkvæma, verði ég valin til að gegna því embætti. Við þurfum að efla og endurreisa aðildarfélögin hringinn í kringum landið því starf okkar allra milli kosninga skiptir sköpum varðandi árangur Samfylkingarinnar í sveitarstjórnar- og þingkosningum.  

Við þurfum að þekkja hvert annað, vita hvað t.d. Arna Lára á Ísafirði, Bára á Akranesi eða Heimir á Akureyri eru að gera í sínum störfum. Því legg ég til að byrjað verði á kynningarátaki innan flokks á öllum kjörnum fulltrúum Samfylkingarinnar. Þannig eflum við liðsheild og aukum stuðninginn hvert við annað.

Þá legg ég til að  send verði mánaðarleg fréttabréf um starfið í sveitastjórnum og þingi til allra áskrifenda; flokks- og stuðningsfólks. Þannig sköpum við talpunkta fyrir okkur í samtölum við fólk um allt land því samtalið á kaffistofunum og í heitu pottunum milli kosninga byggir upp traust og eykur trúverðugleika Samfylkingarinnar. Þá á flokkurinn að standa fyrir föstum fjarfundum einu sinni í mánuði þar sem flokksfólk hittist og spjallar um stjórnmál líðandi stundar.

Ég vil sjá Samfylkinguna í stjórnarráðinu eftir næstu kosningar og til þess þarf forysta flokksins að vera kröftug og samstíga í stórum pólitískum málum. Við komumst þangað ef við mætum vel undirbúin til kosninga sem ein samstíga Samfylking.

Þess vegna gef ég kost á mér í embætti varaformanns.