Hjálmar Sveinsson - 5. sæti

hjálmar, flokksval, reykjavík

Kæru félagar,

mitt erindi í borgarpólitíkinni hefur alltaf verið skýrt. Ég hef einkum starfað að umhverfis- og skipulagsmálum og í menningarmálum. Þegar ég var formaður umhverfis- og skipulagsráðs beitti ég mér fyrir þéttari og mannvænni byggð, betri hjólastígum, göngugötum og hægari bílaumferð. Með þeim árangri að þar sem áður voru endalaus bílaplön, úr sér gengnar atvinnulóðir og veghelgunarsvæði, rísa núna þúsundir íbúða, falleg torg og nytsamleg útisvæði. Ný hámarkshraðaáætlun hefur verið samþykkt og það hefur átt sér stað sannkölluð bylting í gerð hjólastíga. Við ætlum að gera Reykjavík að borg þar sem vistvænar samgöngur eru á heimsmælikvarða. Hraðvagnakerfi Borgarlínunnar er mikilvægasta verkefni næstu ára. Reykjavíkurborg gegnir þar lykilhlutverki.

LIST OG MENNING Í REYKJAVÍK 2030

Ég hef undanfarin ár verið formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Þar hef ég meðal annars leitt vinnu við framsækna menningarstefnu fyrir borgina. Hún heitir „List og menning í Reykjavík 2030“. Við ætlum að gera Reykjavík að frábærri borg til að skapa listir og njóta þeirra. Reykjavík á að vera heimsþekkt menningarborg. Borg þar sem hlutirnir gerast. Ég hef stutt þær mikilvægu breytingar sem eru að verða á samfélagslegu hlutverki bókasafnanna og lagt áherslu á að Bíó Paradís geti starfað áfram. Það hefur tekist sem betur fer. Það var líka gefandi að vera í teyminu sem gekk frá nýrri íþróttastefnu fyrir borgina. Þar er fyrst og fremst lögð áhersla á að íþróttir eigi að vera fyrir okkur öll. Þessi verkefni eru líka pólitísk, og það skiptir miklu máli að allir geti notið sín á grundvelli jöfnuðar og samvinnu.

VISTVÆNA LEIÐIN ER EINA VITRÆNA LEIÐIN

Samfylkingin hefur haft forystu í borgarstjórn undanfarin átta ár og getur horft ánægð um öxl. Ég er stoltur af mínum þætti í þeim árangri. En brýn úrlausnarefni bíða, og ég segi það hiklaust að vegna reynslu minnar og þekkingar kem ég að gagni næsta kjörtímabil við ný verk og framhald hinna fyrri. -  Heimurinn er á krossgötum. Loftslagsvandinn gefur engin grið. Sú vistvæna leið sem við fetum í borginni, er eina vitræna leiðin. Við þurfum að taka enn stærri skref næstu árin. Og auðvitað þurfum við að tryggja að nýja Reykjavík sé skemmtileg og falleg borg, þar sem lögð er áhersla á velferð, á jöfnuð og á góða þjónustu við alla borgarbúa, frá bernsku til efri ára. - Ég er fullur tilhlökkunar að takast á við verkefnin sem framundan eru.

Hjálmar Sveinsson