Mikill hugur í fólki á fjölsóttum baráttufundi í Gerðubergi

Samfylkingin á að fylgja hjartanu og leggja áherslu á hreinskilni og mannúð í komandi kosningabaráttu. Þetta er meðal þess sem lá fólki á hjarta á fjölsóttum fundi samfylkingarfólks í Gerðubergi í Reykjavík í kvöld.

Samfylkingarfélögin í Reykjavík boðuðu til fundarins. Hann átti upprunalega að vera á Hallveigarstíg en þurfti að færa í stærra húsnæði vegna mikillar ásóknar. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, talaði við fundargesti um stöðuna sem upp er komin í íslenskum stjórnmálum og Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður flokksins, fór yfir næstu skref í kosningabaráttunni. Eva Baldursdóttir, formaður Félags frjálslyndra jafnaðarmanna, stýrði fundinum.

Mikill baráttuhugur var í fólki og lýstu fjölmargir sig reiðubúna til að taka þátt í kosningabaráttunni. Þá komu fram þónokkrar ábendingar um áherslumál, sem munu koma að góðum notum á komandi vikum.

Forysta Samfylkingarinnar þakkar öllum fyrir komuna og hlakkar til að vinna með félögum um land allt að sigri Samfylkingarinnar í komandi kosningum.