Hvorki verið að verja velferðina né fjárfesta í framtíðinni

Helstu gagnrýnisatriði Samfylkingarinnar á fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2020 :

1.000 milljarða kr. fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar nær ekki að mæta þeim loforðum sem gefin voru fjölskyldufólki, öryrkjum og námsmönnum. Fátt kem­u á óvart í frumvarpinu enda bygg­ist frum­varpið á fjár­mála­áætl­un­inni sem var samþykkt í vor. Við gagnrýndum áætlunina harðlega og sett­um fram breyt­ingar­til­lög­ur um að standa vörð um vel­ferðina í niður­sveifl­unni, setja meira fjár­magn í skól­ana, ný­sköp­un og rann­sókn­ir og ekki síst í loft­lags­mál­in. Sú gagn­rýni stend­ur enn og Samfylkingin mun leggja fram breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

  • Forsendur fjárlagafrumvarpsins eru í litlu samræmi við raunveruleikann. Í fjárlagafrumvarpinu er ekki útlistað hvernig tekið verður á fyrirsjáanlega versnandi stöðu og engin skref sýnd í frumvarpinu sem þyrfti að taka til  að undirbúa harkalegri niðursveiflu. Í kynningu á frumvarpinu 6. september síðastliðinn sagði fjármálaráðherra að afleiðingarnar kæmu fram bæði á gjalda og tekjuhliðinni og jafnvel verri afkomu. Hvað merkir þetta? Munum við sjá fram á frekari niðurskurð í velferðarkerfinu? Ekkert er gefið upp um það en því hvorki játað né neitað.
  • Landspítalinnm er enn og aftur fjársveltur. Að óbreyttu stefnir Landspítalinn í 4 milljarða kr. halla á þessu ári.
  • Enn vantar SÁÁ sárlega meira fjármagn, en þeir fjármunir sem fjárlaganefnd bætti við í fyrra virðast hafa fallið út í ár. Í þessu samhengi er vert að undirstrika að 581 einstaklingur undir 30 ára innritaðist í fyrstu meðferð á Vogi í fyrra, þar af 70 undir tvítugu.
  • Sérstök aðhaldskrafa í fjárlagafrumvarpinu er lögð á sjúkrahús, öldrunarstofnanir og skóla.
  • Neyðarástand ríkir í loftslagsmálum en einungis 2,5% fjárlaga fara í umhverfismál. Það er alls ekki nóg og lýsir metnaðarleysi stjórnvalda í þessu stærsta sameiginlega verkefni mannkyns.
  • Fjármunir eru beinlínis lækkaðir til framhaldsskóla milli ára í fjárlagafrumvarpinu. Erfitt er að koma auga á margboðaða sókn í menntamálum.
  • Fjármunir til háskólastigsins eru lækkaðir milli ára og er það réttlætt með því að LÍN hafi fengið ofgreiðslu. Það má spyrja af hverju ekki sé í lagi að leyfa málaflokknum að halda þeim fjármunum sem höfðu verið ákveðnir í hann því þörfin er svo sannarlega til staðar. Ljóst er að ríkisstjórnin mun ekki ná meðaltali framlaga OECD ríkja til háskóla og á enn langt í land með að ná meðaltali hinna norrænu ríkjanna. 
  • Afnám kr. á móti kr. skerðninga hjá öryrkjum er enn ófjármagnað. Framlög til réttindagæslu fatlaðra lækka einnig í frumvarpinu.
  • Aukningin fjármagns til aldraðra er sem fyrr einungis vegna fjölgunar í þeim hópi, hækkanir til lífeyrisþega fylgja ekki launaþróun lægstu launa og verða einungis 3,5% í stað 5,7%.
  • Fjármunir til þróunarsamvinnu eru lækkaðir um tæplega 400 milljónir m.a. vegna flutnings fjármuna frá fátækustu þjóðum heims til hernaðarmannvirkja á Keflavíkurflugvelli. 
  • Umbæturnar í velferðarmálum s.s. lenging fæðingarorlofs (um einn mánuð) og örlítil hækkun barnabóta (hækkunin nemur 0,1% af fjárlögunum) eru tilkomnar vegna aðgerða aðila vinnumarkaðarins en ekki vegna frumkvæðis stjórnarflokkanna. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa  ítrekað fellt tillögur Samfylkingar um slíkar aðgerðir. Barnabætur byrja að skerðast við 325 þús kr. laun.
  • Fjármagn til endurhæfingarþjónustu lækkar milli ára.
  • Fjármagn til almennrar löggæslu lækkar milli ára. Þrátt fyrir margföldun ferðamanna og töluverðri íbúafjölgun eru færri lögreglumenn í dag en fyrir 10 árum.
  • Ýmis gjöld sem almenningur er látinn greiða eru hækkuð og það kemur  verst niður á þeim sem hafa minnst milli handanna.
  • Veiðileyfagjaldið er áfram of lágt eða einungis 7 milljarðar. Veiðileyfagjaldið hefur lækkað um 40% síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum.
  • Einungis er gert ráð fyrir 3,5% launahækkun fyrir opinbera starfsmenn í fjárlagafrumvarpinu í verðbólgu sem verður líklegast mun hærri.
  • Skattastefna ríkisstjórnarinnar er staðfest í fjármálaáætluninni. Enn eru það 5% ríkustu Íslendingarnir sem eiga næstum jafnmikið og hin 95%, í sérstöku skjóli ríkisstjórnarinnar á tímum niðursveiflu.
  • Það er miður að ríkisstjórnin skuli ekki hafa nægan metnað eða framsýni til þess að styðja betur við lítil fyrirtæki í landinu. Samfylkingin mun leggja sitt af mörkum og setja í forgang þingsályktun um stuðningsaðgerðir í þágu smárra fyrirtækja. Það þarf að lækka tryggingagjald meira á fyrirtæki sem það er mest íþyngjandi – fyrirtæki með háan launakostnað, lítil fyrirtæki. Létta á regluverki og afnema þak endurgreiðslum vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar.
  • Enn stendur til að lækka bankaskattinn á næstu árum. Tekjutap ríkissjóðs á 4 árum verður yfir 18 milljarðar. 
  • Ríkustu einstaklinga landsins á að verja fyrir verðbólgu með breyttu fyrirkomulagi á fjármagnstekjuskatti. Fjármagnstekjuskattur er lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndunum.