Í vikulokin

Við í þingflokki jafnaðarmanna á Alþingi létum til okkar taka í vikunni 27. febrúar – 3. mars 2017 eins og við var að búast.
Ég mælti fyrir mikilvægu máli um rafræna birtingu málaskráa og gagna ráðuneyta. Umræðan um málið var mjög góð, eins og sjá má hér og það fékk þverpólitískan stuðning. Þó að tilefni þess hafi verið að forsætisráðherra ákvað að geyma tvær mikilvægar skýrslur í skúffu í fjármálaráðuneytinu fram yfir kosningar og stjórnarmyndunarviðræður, þá verður ávinningurinn mikill og víðtækur fyrir almenning í landinu verði það samþykkt. Gegnsærri stjórnsýsla hjálpar til við að byggja upp traust og eyða tortryggni.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar spurði samgönguráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma um samgöngumál og samráð við sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu. Hann leiðrétti líka ráðherrann sem hafði farið með rangt mál í umræðum í þinginu. Hér eru samskiptin á milli Loga og Jóns Gunnarssonar.
Logi spurði einnig iðnaðarráðherra um skilgreiningu á mengandi stóriðju og hvaða lagabreytingar þyrfti að ráðast í til að koma í veg fyrir að fleiri slík fyrirtæki hösluðu sér völl hér á landi. Fátt var um svör en samskiptin má finna hér.
Ég óskaði eftir sérstakri umræðu um eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem liggur nú í drögum á vef fjármálaráðuneytisins til 10. mars. Stefnan er sú að allt á að selja nema 34-40% hlut í Landsbankanum og ætlunin virðist vera að við búum við sama skipulag bankakerfis og fyrir hrun með nánast sömu áhættu fyrir almenning. Hér er umræðan í heild sinni. Bylgjan og fréttastofa Stöðvar2 sýndu málinu áhuga, enda er þetta stórmál sem halda verður á lofti og kalla fram frekari umræðu um. Hér er umfjöllun í fréttatíma Stöðvar2 og hér er slóð á þáttinn Sprengisand þar sem ég fór yfir þessi mál ásamt fleirum.
Spegillinn fjallaði í vikunni við Guðjón S. Brjánsson um málið okkar um þjónustu við einstaklinga með heilabilun. Hér er slóð á Spegilinn.
Guðjón tók líka þátt í sérstakri umræðu um stefnumótun í heilbrigðiskerfinu sem er sannarlega aðkallandi. Ræðurnar hans Guðjóns eru hér og hér.
Skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra var á dagskrá í vikunni um stærsta sameiginlega verkefni mannskyns sem er að stöðva hlýnun jarðar. Við Logi tókum þátt í henni. Hér er ræðan hans Loga og hér er mín ræða.
Við tókum þátt í umræðum um margt annað, s.s. um skýrsluna um Kópavogshælið, matvælaframleiðslu og loftslagsmál, neyðarflugbrautina, hatursorðræðu og greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu svo eitthvað sé nefnt.
Handan við hornið er ný vika í þinginu. Stjórnarandstaðan hefur haldið uppi störfunum frá stjórnarmyndun. Fljótt kemur í ljós hvort það verður stjórnarandstaðan sem heldur uppi störfunum líka í næstu viku en allar líkur eru á því.
Góðar stundir! Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar