Jöfn tækifæri fyrir fólk af erlendum uppruna

Í vikunni talaði Guðjón S. Brjánsson fyrir þingsályktunartillögu um mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í íslensku samfélagi. Hann vakti líka athygli á tillögunni undir liðnum störfum þingsins þar sem hann einnig greindi frá þeirri stöðu sem er uppi í málefnum innflytjenda.

Tillagan felur í sér að Alþingi álykti að fela félags- og jafnréttismálaráðherra í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra að móta stefnu fyrir einstaklinga og fjölskyldur af erlendum uppruna sem hafi það að markmiði að auka gagnkvæman skilning og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins. Sérstök áhersla verði lögð á félagsleg réttindi, heilbrigðisþjónustu, menntun og atvinnuþátttöku þannig að á Íslandi verði fjölmenningarsamfélag þar sem grundvallarstefin eru jafnrétti, réttlæti og virðing fyrir lífi án mismununar. Ráðherra kynni stefnuna fyrir Alþingi í upphafi 150. Löggjafarþings. Í ræðu sinni um málið sagði Guðjón meðal annars:

„Fólksflutningar á milli landa eru í senn eitt helsta tækifæri og ein veigamesta áskorun alþjóðasamfélagsins. Um 250 milljónir manna eru á faraldsfæti um heimsbyggðina utan síns heimalands, hafa aldrei verið fleiri og þeim mun samkvæmt spám heldur fjölga en hitt. Samkvæmt skilgreiningu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna flytja langflestir innflytjenda, um 90%, búferlum að eigin ósk. Ástæðan er alla jafna fjárhagsleg, þ.e. að í heimalandinu er vinna við hæfi ekki í boði eða um almennan atvinnubrest er að ræða. Þau 10% sem eftir standa eru flóttamenn og hælisleitendur sem flýja til annars lands undan ofsóknum, hótunum og/eða átökum.“

Flutningsmenn eru Guðjón S. Brjánsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir.

Hérna má nálagst tillöguna í heild sinni: https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill//?ltg=149&mnr=274