Jóhann Páll

2. sæti Reykjavík norður

Úr blaðamennskunni í pólitíkina

Jóhann ákvað að hella sér út í pólitík, því hann telur að stærstu vandamál heimsins verði ekki leyst nema með mjög kraftmikilli beitingu ríkisvalds á kostnað sérhagsmuna. Jóhann vill leggja sitt á lóðarskálarnar fyrir betra samfélagi og leggja áherslu á jöfnuð, loftslag og mannúðlegri mótttöku flóttafólks.

Jóhann Páll ólst upp í Laugaráshverfinu og ætlaði að verða tónlistarmaður. Hans frægðarsól skein kannski einna skærast þegar hann sló í gegn með lagi sínu Hvar er Guðmundur, 12 ára gamall. Jóhann er þó kannski þekktastur á fullorðinsárunum sem blaðamaður á Stundinni, en hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir dirfsku í umfjöllun sinni. 

Jóhann telur að stærstu vandamál heimsins verði ekki leyst nema með mjög kraftmikilli beitingu ríkisvalds á kostnað sérhagsmuna. „Ég myndi segja að stóru áskoranirnar sem heimsbyggðin glímir við séu annars vegar misskipting auðs og yfirgangur hinna stóru, fjársterku og valdamiklu og svo hins vegar hamfarahlýnun, loftslagsbreytingar af manna völdum,“ segir Jóhann sem vill að Ísland setji sér markmið um 60 prósenta samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030. 

Ég trúi því að jöfnuður sé ekki einhver hindrun í vegi þess að samfélög vaxi og dafni heldur þvert á móti undirstaða hagsældar. Svo er það líka þannig að markaðir virka langbest þegar kjörum er ekki of misjafnt skipt.

Jóhann Páll Jóhannsson 2. sæti í Reykjavík norður

Meiri metnað í loftslagsmálin

Jóhann vill leggja fram metnaðarfyllri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem felur í sér hröðun orkuskipta, stóreflingu almenningssamgangna og markvissar aðgerðir til að bæta landnýtingu og draga úr losun frá landbúnaði. „Þetta krefst þess að við hrifsum völdin af auðstéttinni, umbyltum kerfunum okkar í þágu fjöldans og þess vegna er ég vinstrimaður; ég trúi því að jöfnuður sé ekki einhver hindrun í vegi þess að samfélög vaxi og dafni heldur þvert á móti undirstaða hagsældar.“

Mannúðlegri móttökur

Jóhann vill að Íslendingar axli ábyrgð í flóttamannamálum með mannúðlegri móttöku hælisleitenda. „Við verðum sem samfélag einhvern veginn að smíða einhverjar reglur sem valda því ekki að nánast mánaðarlega komi upp mál sem bara öllu heiðvirðu fólki misbýður þar sem verið er að senda fólk úr landi sem á einfaldlega heima hérna, börn sem hafa alist upp á Íslandi og fest rætur hér.“

Nokkrar laufléttar...

  • Góður smiður, handlaginn og snjall í að gera við hluti.

  • Samloka með hummus

  • Þoli ekki svona hamingjutal-eitthvað.

Æviágrip

Jóhann Páll Jóhannsson er blaðamaður og stjórnmálahagfræðingur. Hann er fæddur 1992. Jóhann er nýfluttur frá Bretlandi eftir framhaldsnám í evrópskri stjórnmálahagfræði og sagnfræði. Maki Jóhanns er Anna Bergljót Gunnarsdóttir, nýdoktor í efnafræði við Cambridge-háskóla. Jóhann er sonur hjónanna Bryndísar Pálsdóttur, fiðluleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands, og Jóhanns G. Jóhannssonar tónskálds.

Starfsferill

Jóhann starfaði sem blaðamaður á Stundinni frá stofnun fjölmiðilsins 2015 til 2019 og áður á DV. Hann hefur þrisvar sinnum unnið til blaðamannaverðlauna fyrir störf sín, m.a. fyrir umfjöllun um lekamálið árið 2014 og uppreist æru kynferðisbrotamanna 2017 og auk þess hlotið tilnefningar, m.a. árið 2018 fyrir umfjöllun um viðskipti Bjarna Benediktssonar og fjölskyldu hans við Glitni í aðdraganda bankahrunsins.

Jóhann Páll lauk meistaranámi í evrópskri stjórnmálahagfræði við LSE í haust og meistaranámi í sagnfræði frá Edinborgarháskóla árið 2017. Áður tók hann BA í heimspeki við Háskóla Íslands með lögfræði á alþjóðasviði sem aukagrein.