Kveðja frá formanni í aðdraganda landsfundar

Ágæti félagi.

Það er sagt að kötturinn hafi níu líf og það þykir mikið.  Guð má vita hvað mörg líf stjórnmálaflokkar eiga en ég er þó sannfærður um að Samfylkingin á langt líf fyrir höndum og hugsjónir okkar jafnaðarmanna eru eilífar.  Hugsjónir eru eins og lækurinn; finna sér alltaf farveg. Okkar verkefni er að sjá til þess að sá farvegur verði innan Samfylkingarinnar.

Í starfi stjórnmálaflokka geta skipst á skin og skúrir.  Þegar á brattann er að sækja er mikilvægt að ydda málflutninginn og koma honum frá sér á kjarnyrtan hátt. Okkar stefna er í grunninn sáraeinföld:  Við trúum því að jafnrétti og mikill jöfnuður sé líklegasta leiðin til að byggja upp réttlátt, friðsælt og kraftmikið samfélag. Til að ná því viljum við byggja á samkennd og samhjálp. Þau okkar sem geta borið meiri byrðar, þeim sem minna hafa er hlíft og þeir sem þurfa hjálparhönd fá hana.

Þegar kötturinn slasar sig, dregur hann sig tímabundið í hlé, sleikir sár sín og kemst von bráðar á veiðar aftur. Þá sýnir hann bæði  tennur og klær. Nú er tæpt ár síðan við biðum mikinn ósigur í alþingiskosningum og eðlilega var okkur nokkuð brugðið fyrst á eftir. Ótal stórar spurningar vöknuðu. Hvort flokkurinn lifði þetta af, hvað hann ætti að heita og hvort hann væri réttur farvegur fyrir hugsjónir okkar. Við höfum þó hægt og bítandi sigið upp í skoðanakönnunum og erum óðar að komast aftur á lappir en betur má ef duga skal. Vissulega hefur það ekki gengið í neinum stórum stökkum en líklega er sígandi lukka best í þessu eins og öðru. Hvort Samfylkingin verður aftur það afl sem hún var, verður tíminn að leiða í ljós.  Það er  mikilvægt að afl jafnaðarmanna verði aftur mikið.  Tvennar stjórnarmyndunarviðræður flokkanna fimm, sem því miður fóru út um þúfur s.l. vetur, sýndu það vel.

Í haust mætum við því til þings, full sjálfstrausts, sannfærð um að stefna flokksins okkar getur gert Ísland að betra landi.  Við munum áfram berjast fyrir réttindum tekjulágra, aldraðra og öryrkja. Skapa fjölskyldufólki ákjósanlegri skilyrði. M.a. með mannúðlegri íbúðastefnu og öflugri húsnæðisstuðningi. Barnabótum sem munar um og eru ekki hugsaðar sem fátækrastyrkur heldur mikilvæg fjárfesting landsins alls. Við viljum samfélag þar sem efnahagur ræður ekki hvort fólk leitar sér lækninga og þar sem allir eiga möguleika á að sækja sér menntun, þar sem þeir geta byggt á styrkleikum sínum. Við munum því enn sem fyrr vera málsvarar réttlátar samneyslu. Þá munum við halda baráttunni fyrir nýrri stjórnarskrá hátt á lofti og berjast fyrir því að auðlindir okkar séu nýttar á skynsamlegan hátt og þannig að samfélagið njóti sanngjarns arð af þeim.  Við verðum að sjálfsögðu áfram rödd opinna samskipta við önnur lönd,  ábyrgir talsmenn í loftlags- og umhverfismálum og fyrir því að aðstoða erlent fólk á flótta undan neyð.

Í haust, 27.-28. október, höldum við landsfund Samfylkingarinnar.  Þar verður kosið í öll embætti á vegum flokksins. Ég heiti á ykkur að íhuga hvort þið viljið leggja af mörkum í einhverju þeirra og bjóða ykkur fram.  Alla hvet ég til að taka frá þessa daga og mæta á fundinn.  Hann markar samtímis upphaf kosningarbaráttu til sveitastjórnar og upphaf nýrrar sóknar Samfylkingarinnar, auk þess að verða að sjálfsögðu nauðsynleg deigla stefnumótunar okkar til næstu framtíðar.  Þá er ótalin nauðsyn þess að hittast og skemmta sér saman, en gleðin er alltof vanmetin þáttur, ekki síst í stjórnmálastarfi.

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér sem formaður flokksins. Ég hef fulla trú á því að Samfylkingin nái aftur vopnum sínum og styrkist nægilega til að verða aftur það hreyfiafl sem er nauðsynlegt í stjórnmálum dagsins. Það getur þó vissulega tekið tíma og endurnýjað traust byggist á því að verðum staðföst í öllum okkar málflutningi um leið og við gætum að því að hafa þolinmæði og æðruleysi með í farteskinu. Við skulum einsetja okkur að ná því markmiði samstillt og öll saman.

Logi Einarsson, formaður

Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands