Kynnstu Kristrúnu!

Kristrún hefur starfað við efnahagsmálagreiningu og -ráðgjöf síðustu ár á Íslandi, í Bandaríkjunum og Bretlandi. Hún er fædd og uppalin í Reykjavík, gekk í Fossvogsskóla með stuttu stoppi í Bury Grammar School í Manchester, Bretlandi, Hvassaleitisskóla og síðar Menntaskólann í Reykjavík. Hún hóf nám í hagfræði við Háskóla Íslands haustið 2008, lauk mastersgráðu frá Boston háskóla 2013 og lagði síðar áherslu á hagstjórn og alþjóðafjármál í framhaldsnámi sínu við Yale háskóla í Bandaríkjunum.

Kristrún tók sín fyrstu skref á vinnumarkaði samhliða námi í Seðlabankanum árið 2009 og starfaði sem hagfræðingur í greiningardeild Arion banka áður en hún flutti til Bandaríkjanna í framhaldsnám. Þar starfaði hún síðar hjá bandaríska fjárfestingarbankanum Morgan Stanley sem greinandi í New York og í kjölfarið á London skrifstofu fyrirtækisins.

Eftir stutt stopp hjá Viðskiptaráði eftir flutning heim til Íslands tók Kristrún við stöðu aðalhagfræðings Kviku banka árið 2018. Samhliða störfum sínum hefur hún sinnt ráðgjöf fyrir forsætisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og kennt hagfræði við Háskóla Íslands.

Ég tók meðvitaða ákvörðun um að hætta að vinna með peninga afmarkaðs hóps og einbeita mér að því að vinna fyrir almenning.

Kristrún lagði lengi stund á tónlistarnám, lauk framhaldsprófi í klassískum píanóleik og er ágætlega samkvæmishæf á harmonikku. Hún er mikill tónlistarunnandi, hefur gaman af nútímalist, áhugakona um gott kaffi og eyðir langmest af frítíma sínum með fjölskyldu, á leikvöllum borgarinnar og í eldhúskróknum hjá foreldrum og tengdaforeldrum.

Kristrún býr í Reykjavík ásamt eiginmanni sínum Einari Bergi Ingvarssyni og dóttur þeirra Maríu Herdísi (f. 2019).