Kynnstu Þórunni!

Þórunn Sveinbjarnardóttir er söngelskur sósíaldemókrati, femínisti og græningi og stofnfélagi í Samfylkingunni. Hún hefur m.a. verið  umhverfisráðherra og formaður BHM.

Þórunn hefur starfað í pólitík frá unga aldri. Hún er einn af stofnendum Röskvu, samtaka félagshyggjufólks við HÍ, og var fyrsti formaður þeirra árið 1988. Á árunum 1992 til 1995 var hún starfskona Kvennalistans. Þórunn tók þátt í kosningabaráttu Reykjavíkurlistans árið 1994 og var annar tveggja kosningastjóra R-listans árið 1998. Veturinn 1998 til 1999 vann hún að stofnun Samfylkingarinnar og sat í viðræðuhópi forystufólks Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Kvennalistans. Þórunn var kosin á þing fyrir Samfylkinguna í Reykjaneskjördæmi vorið 1999 og sat á þingi til 2011. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstöðum fyrir Samfylkinguna innan og utan þings. Árin 2007 til 2009 var Þórunn umhverfisráðherra en hún hefur einnig verið þingflokksformaður. Árin 2013 til 2015 var hún framkvæmdastýra Samfylkingarinnar. Vorið 2015 var Þórunn kosin formaður Bandalags háskólamanna (BHM) og gegndi því starfi þar til hún varð oddviti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 2021.

Þórunn fæddist í Reykjavík og ólst upp í Norðurmýri og Fossvoginum. Hún gekk í Ísaks-, Fossvogs, og Réttarholtsskóla og lauk stúdentsprófi frá MR árið 1984. Í HÍ lagði hún stund á stjórnmála- og fjölmiðlafræði og hélt svo í framhaldsnám í alþjóðastjórnmálum við Johns Hopkins háskóla. Þórunn lauk svo meistaragráðu í hagnýtri siðfræði, með áherslu á umhverfismál, frá HÍ árið 2014.

Þórunn var blaðamaður á Morgunblaðinu með háskólanámi og einnig hið örlagaríka ár í aðdraganda stofnunar Samfylkingarinnar. Á árunum 1995 til 1997 starfaði hún sem sendifulltrúi Rauða kross Íslands í flóttamannaverkefnum í Tansaníu og Aserbaidsjan. Hún hefur einnig unnið sérverkefni fyrir Rauða krossinn, síðast í Armeníu og Georgíu árið 2009.

Ef Þórunn er ekki á fundi eða í vinnunni má oft finna hana á göngu með heimilishundinn Gógó, að stússast með fjölskyldu og vinum, á ferðalagi í náttúru Íslands eða að leggja drög að heimsyfirráðum femíniskra jafnaðarmanna. Hún er alæta á bókmenntir, bíómyndir og listir og finnst gaman að elda ofan í fólk sem henni þykir vænt um. Eitt árið fór hún 62 sinnum í bíó. Það met verður ekki toppað í bráð. Þórunn stundaði píanónám og söng með Háskólakórnum í nokkur ár.

Foreldrar Þórunnar eru Anna Huld Lárusdóttir búsett á Seltjarnarnesi og Sveinbjörn Hafliðason sem lést fyrr á þessu ári. Þórunn er ein þriggja systra, á eina dóttur, Hrafnhildi Ming f. 2002, og hefur búið í Garðabæ síðustu tvo áratugi.