Magnús Árni Skjöld Magnússon

Kæra Samfylkingarfólk, ég gef kost á mér í starf formanns framkvæmdastjórnar flokksins á komandi landsfundi. Undanfarin tvö ár hef ég haldið utan um alþjóðamálahóp Samfylkingarinnar og kynnst í gegnum það því góða uppbyggingar- og málefnastarfi sem er verið að vinna um þessar mundir í undirbúningi mikilvægra kosninga á næsta ári, þegar við jafnaðarfólk ætlum að vinna góðan sigur og koma flokknum í ríkisstjórn til að takast á við þær risavöxnu áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Ég vil leggja mitt lóð á vogarskálarnar í því verkefni.

Ég hef starfað í hreyfingu jafnaðarmanna frá árinu 1986 og tekið að mér ýmis verkefni, var m.a. í fyrsta þingflokki Samfylkingarinnar veturinn 1998-1999 og hef verið í trúnaðarstörfum fyrst fyrir Samband ungra jafnaðarmanna, FNSU, Alþýðuflokkinn og síðar Samfylkinguna. Ég brenn fyrir hugsjónir jafnaðarmanna og vil nýta reynslu mína í þágu þeirra hugsjóna.

Ég er fæddur 14. mars 1968, faðir fjögurra barna, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, uppalinn í Kópavogi og bý í Reykjavík. Fyrir þá sem vilja kynna sér það sem ég hef verið að gera í gegnum tíðina eru hér tenglar á facebook og LinkedIn prófílana mína og vefsíðuna mína:

https://www.facebook.com/magnus.schioeld

https://www.linkedin.com/in/magnusarni/

https://magnusarni.wordpress.com/

Ég hlakka til landsfundarins um helgina og samstarfsins við ykkur þar kæru samherjar.

Magnús Árni Skjöld Magnússon