Við viljum nána og góða samvinnu Íslands við önnur lýðræðisríki og virka þátttöku Íslendinga innan alþjóðasamfélagsins

Lykill að farsæld þjóðar felst í nánum samskiptum við aðrar þjóðir, ekki síst innan Evrópu

Alþjóðleg samvinna

Ýmis úrlausnarefni nútímans verða ekki leyst nema á alþjóðavettvangi, loftslagsmálin eru augljóst dæmi. Framtíð okkar byggir á opnum og fordómalausum alþjóðasamskiptum og viljum við að unnið verði gegn hvers kyns öfgahyggju. Ísland getur nýtt sérstöðu sína sem herlaust land og verið öflugur talsmaður friðar og samvinnu á alþjóðavettvangi.

Besta leiðin til þess að tryggja stöðugleika, lækka vexti og auka erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi er upptaka evru í kjölfarið á aðild að Evrópusambandinu

Við teljum hagsmunum Íslands best borgið innan Evrópusambandsins. EES-samningurinn er mikilvægur fyrir Ísland en nú er tími kominn til að taka skrefið lengra og taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið á nýjan leik og halda þjóðaratkvæðagreiðslu þegar aðildarsamningur liggur fyrir.