Við viljum nána og góða samvinnu Íslands við önnur lýðræðisríki og virka þátttöku Íslendinga innan alþjóðasamfélagsins

Lykill að farsæld þjóðar felst í nánum samskiptum við aðrar þjóðir, ekki síst innan Evrópu

Alþjóðleg samvinna

Ýmis úrlausnarefni nútímans verða ekki leyst nema á alþjóðavettvangi, loftslagsmálin eru augljóst dæmi. Framtíð okkar byggir á opnum og fordómalausum alþjóðasamskiptum og viljum við að unnið verði gegn hvers kyns öfgahyggju. Ísland getur nýtt sérstöðu sína sem herlaust land og verið öflugur talsmaður friðar og samvinnu á alþjóðavettvangi.

Samfylkingin sér verðmæti í fjölbreyttu samfélagi, þar sem ólíkir menningarheimar auðga tilvist okkar og auka víðsýni. Í slíku samfélagi er ekki rými fyrir kynþáttahatur, fordóma né aðra mismunun.

Í því skyni vill Samfylkingin tryggja frelsi hvers og eins til þess að aðhyllast trúarbrögð, lífsskoðanir og lífsgildi af ólíkum toga, án mismununar.

Samfylkingin viðurkennir ábyrgð Íslands sem ríkrar þjóðar að taka á móti og hlúa vel að fólki sem flýr erfiðar aðstæður heimafyrir vegna átaka, efnahagsástands, ofsókna eða loftslagsbreytinga og kemur til Íslands í leit að betra lífi. Ísland verður þar af leiðandi að veita fleira fólki á flótta vernd hér á landi og endurskoða beitingu Dyflinarreglugerðarinnar með mannúðarsjónarmið að leiðarljósi. 

Ísland er heimili okkar allra, við viljum að allir geti tekið þátt í samfélaginu og líði vel. Bjóða þarf öllum nemendum af erlendum uppruna upp á fyrsta flokks íslenskukennslu og veita þeim sem besta aðstoð við móðurmálskennslu.