Við viljum nána og góða samvinnu Íslands við önnur lýðræðisríki og virka þátttöku Íslendinga innan alþjóðasamfélagsins

Lykill að farsæld þjóðar felst í nánum samskiptum við aðrar þjóðir, ekki síst innan Evrópu

Alþjóðleg samvinna

Ýmis úrlausnarefni nútímans verða ekki leyst nema á alþjóðavettvangi, loftslagsmálin eru augljóst dæmi. Framtíð okkar byggir á opnum og fordómalausum alþjóðasamskiptum og viljum við að unnið verði gegn hvers kyns öfgahyggju. Ísland getur nýtt sérstöðu sína sem herlaust land og verið öflugur talsmaður friðar og samvinnu á alþjóðavettvangi.

Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum en nú. Aldrei hafa fleiri óskað eftir alþjóðlegri vernd. Grípa þarf til umfangsmikilla aðgerða, m.a. í formi mannúðar- og efnahagsaðstoðar, á þeim svæðum sem fólk er að flýja.

Íslandi ber að aðstoða þau ríki sem bera þyngstu byrðarnar í dag og ráða ekki við áskorunina sem felst í móttöku, skráningu og hýsingu flóttafólks. Til lengri tíma litið snýst verkefnið um að vinna að friði.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

  • Íslensk stjórnvöld leggi sitt af mörkum svo hægt sé að taka á þeim áskorunum sem fylgja auknum straumi flóttafólks til Evrópu. Það er mannúðarmál sem snertir okkur öll. Ísland verður þar af leiðandi að veita fleira fólki á flótta vernd hér á landi.
  • Dyflinarreglugerðin, og þá sérstaklega beiting hennar hér á landi, verði endurskoðuð með mannúðarsjónarmið að leiðarljósi.
  • Íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því að þjóðir Evrópu axli sameiginlega ábyrgð og taki við fleira flóttafólki.
  • Auka framlag Íslands til Flóttamannastofnunnar Sameinuðu þjóðanna.