Fjölbreytt atvinnulíf er leiðin að góðu og hamingjusömu samfélagi

Finna þarf nýjar leiðir til þess að tryggja öllum störf við hæfi og mannsæmandi líf

Það er eitt af grundvallarsjónarmiðum Samfylkingarinnar að sérhverjum einstaklingi verði tryggð skilyrði til að rækta hæfileika sína og nýta í þágu eigin velferðar, samfélags síns og komandi kynslóða. Atvinnutækifæri þurfa að vera fjölbreytt og vinnustaðir öruggir fyrir þá sem þar starfa. Girða þarf fyrir félagsleg undirboð og tryggja að réttindi og laun allra sem vinna hér á landi séu í samræmi við kjarasamninga og lög.

Styðjum betur við bakið á frumkvöðlum

Fjölga þarf vellaunuðum störfum hér á landi og auka fjölbreytni þeirra um allt land. Til þess þarf að byggja atvinnulífið í enn frekara mæli á hugviti, listum og nýsköpun. Sú þróun er líka nauðsynleg til þess að bregðast við þeirri öru þróun í tækni sem nú á sér stað um heim allan og er að gjörbreyta þeim störfum sem mannshöndin og hugvitið kemur að. Ísland á að vera í forystu á heimsvísu í að mæta þeim áskorunum sem eru framundan. Lykilatriði í þeim undirbúningi er sókn í skólakerfinu sem gerir Íslendingum kleift að vera virkir þátttakendur í þeirri framþróun sem verður á næstu árum. Finna þarf nýjar leiðir til þess að tryggja öllum störf við hæfi og mannsæmandi líf. Afleiðing tæknibyltingar má aldrei verða aukinn ójöfnuður og fátækt.

Þannig tryggjum við að ungt fólk sjái sér framtíð hér á landi og að samkeppnishæfni Íslands verði í fremstu röð. Besta leiðin til þess að tryggja stöðugleika, lækka vexti og auka erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi er upptaka evru í kjölfarið á aðild að Evrópusambandinu.

Samfylkingin leggur áherslu á:

  • Að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.
  • Stórsókn í skólakerfinu með áherslu á iðn- og tæknimenntun til þess að mæta tækniframförum og breytingum á vinnumarkaði.
  • Lækkun tryggingargjalds sem leggst ofan á launagreiðslur fyrirtækja og þ.a.l. þyngst á fyrirtæki með háan launakostnað.
  • Að auka fjárfestingu í fyrirtækjum í nýjum og vaxandi atvinnugreinum með því að veita almenningi skattafrádrátt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
  • Jafnrétti til náms og að fólk á öllum aldri njóti raunverulegra tækifæra til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði, m.a. með greiðu aðgengi að námi án aldurstakmarka.
  • Að lágmarkslaun í landinu séu mannsæmandi og dugi til framfærslu.
  • Að koma í veg fyrir félagsleg undirboð og mansal með öflugu eftirliti í samstarfi við verkalýðsfélög og með því að móta og setja í framkvæmd markvissa vinnu gegn mansali.
  • Að Iögleiða keðjuábyrgð á verktakamarkaði og stuðla að heilbrigðum viðskiptaháttum.

Við þurfum að nýta arð af auðlindum landsins í þágu fólks og atvinnulífs um land allt. Nýting auðlindaarðsins til uppbyggingar fyrir atvinnulíf framtíðarinnar er lykill að farsælli byggðastefnu. Byggja þarf upp atvinnulíf og samgöngur út um allt land. Leggja þarf enn meiri áherslu á sóknaráætlanir landshluta þar sem heimamenn forgangsraða fjárfestingu og uppbyggingu í heimabyggð. Auk þess þarf hið opinbera að bjóða störf án staðsetningar setja á á fót stjórnsýslustarfsstöðvar í stærri sveitarfélögum þar sem starfsfólk mismunandi stjórnsýslustofnana getur starfað. Virk jafnréttisstefna og löggjöf um jafna stöðu kynja er nauðsynleg til að tryggja að atvinnulífið fái notið reynslu, hæfileika og þekkingu allra óháð kyni þeirra. Íslenskt atvinnulíf þarf að hafa aðgang að menntuðu og sérhæfðu starfsfólki, bæði innlendu og erlendu og gera þannig íslensk fyrirtæki samkeppnishæf um mannauð í alþjóðlegu samhengi.