Fjölbreytt atvinnulíf er leiðin að góðu og hamingjusömu samfélagi

Finna þarf nýjar leiðir til þess að tryggja öllum störf við hæfi og mannsæmandi líf

Það er eitt af grundvallarsjónarmiðum Samfylkingarinnar að sérhverjum einstaklingi verði tryggð skilyrði til að rækta hæfileika sína og nýta í þágu eigin velferðar, samfélags síns og komandi kynslóða. Atvinnutækifæri þurfa að vera fjölbreytt og vinnustaðir öruggir fyrir þá sem þar starfa. Girða þarf fyrir félagsleg undirboð og tryggja að réttindi og laun allra sem vinna hér á landi séu í samræmi við kjarasamninga og lög.

Vegna mikillar fjölgunar ferðamanna, sem hafa sótt Ísland heim, er mikilvægt að fara í innviðauppbyggingu á helstu ferðamannastöðum um allt land.

Auka þarf opinberar tekjur til að standa undir auknum framlögum til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og sveitarfélaga.

Samfylkingin leggur áherslu á:

  • Samstillt átak ferðaþjónustufyrirtækja og stjórnvalda til að vernda og byggja upp ferðamannastaði. Til framtíðar á áherslan að vera á aukna verðmætasköpun í greininni fremur en fjölgun ferðamanna og jafnari dreifingu ferðamanna út um allt land.
  • Umboð stjórnvalda til að grípa inn í ef hætta stafar af ágangi ferðamanna, t.d. með tímabundnum lokunum eða takmörkunum á umferð og fjölda ferðamanna inn á ákveðin svæði.
  • Sanngjarna leið til innheimtu auðlindagjalds vegna nýtingar ferðaþjónustunnar á náttúru landsins. Með slíku gjaldi er unnt að tryggja vernd og viðhald fjölsóttustu ferðamannastaða, skapa færi til að fjölga áfangastöðum, bæta gæði og þar með verðmætasköpun í ferðaþjónustunni.
  • Tryggja þarf að verulegur hluti skatttekna af ferðaþjónustu renni til sveitarfélaga.
  • Krafa verði gerð um að leiðsögumenn með íslenska löggildingu verði með öllum hópum í skipulögðum ferðum á Íslandi.
  • Einfalda stjórnsýslu ferðamála og náttúruverndar og gera hana skilvirkari