Fjölbreytt atvinnulíf er leiðin að góðu og hamingjusömu samfélagi

Finna þarf nýjar leiðir til þess að tryggja öllum störf við hæfi og mannsæmandi líf

Það er eitt af grundvallarsjónarmiðum Samfylkingarinnar að sérhverjum einstaklingi verði tryggð skilyrði til að rækta hæfileika sína og nýta í þágu eigin velferðar, samfélags síns og komandi kynslóða. Atvinnutækifæri þurfa að vera fjölbreytt og vinnustaðir öruggir fyrir þá sem þar starfa. Girða þarf fyrir félagsleg undirboð og tryggja að réttindi og laun allra sem vinna hér á landi séu í samræmi við kjarasamninga og lög.

Íslenska þjóðin á að fá fullt auðlindagjald í sjávarútvegi. Góð leið til þess er að bjóða út kvóta til þess að tryggja almenningi fullt gjald af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

Úthluta á aflaheimildum á jafnræðisgrundvelli til hóflegs tíma með gagnsæjum hætti. Nýir fiskistofnar og aukning á kvóta eiga strax að fara í útboð.

Samfylkingin leggur áherslu á:

  • Heilbrigðar leikreglur um framtíðarskipan fiskveiðistjórnunar á Íslandi með atvinnufrelsi, jafnræði, byggðasjónarmið og nýliðunarmöguleika að leiðarljósi.
  • Vinna með öllum ráðum gegn mengun hafsins og súrnun sjávar.
  • Að efla umræðu um þá möguleika sem opnast með aðild að ESB hvað varðar arðsama vinnslu sjávarafurða á Íslandi. Með aðild fæst fullt tollfrelsi fyrir allar sjávarafurðir á Evrópumarkað.
  • Taka strandveiðikerfið til endurskoðunar og festa það í sessi