Fjölbreytt atvinnulíf er leiðin að góðu og hamingjusömu samfélagi

Finna þarf nýjar leiðir til þess að tryggja öllum störf við hæfi og mannsæmandi líf

Það er eitt af grundvallarsjónarmiðum Samfylkingarinnar að sérhverjum einstaklingi verði tryggð skilyrði til að rækta hæfileika sína og nýta í þágu eigin velferðar, samfélags síns og komandi kynslóða. Atvinnutækifæri þurfa að vera fjölbreytt og vinnustaðir öruggir fyrir þá sem þar starfa. Girða þarf fyrir félagsleg undirboð og tryggja að réttindi og laun allra sem vinna hér á landi séu í samræmi við kjarasamninga og lög.

Mikil sóknarfæri eru í landbúnaði og liggja þau m.a. í þróun matvæla, tengslum við ferðaþjónustu og skógrækt.

Endurskoða skal búvörusamninga með það að markmiði að bæta kjör og aðstæður bænda og tryggja neytendum sanngjarnt verð og gæði. Draga þarf úr samtengingu framleiðslu og stuðnings ríkisins og færa stærri hluta stuðnings við landbúnað til sjálfbærrar nýtingar landsins.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

  • Hagsmunir bænda og neytenda fari saman í áherslu á nýsköpun, sjálfbærni, framþróun í greininni og velferð dýra.
  • Styrkjaumhverfi landbúnaðarins tryggi rekstraröryggi og afkomu bænda.
  • Rekstrarumhverfi landbúnaðarins verði með þeim hætti að það styrki byggðir, auki frelsi bænda og leiði af sér hagkvæma og vistvæna gæðaframleiðslu.
  • Vöruverð til neytenda lækki og samkeppni verði aukin með lækkun verndartolla í landbúnaði.
  • Ríkið setji sér matarstefnu sem taki mið af sjálfbærni í matvælaframleiðslu, loftslagsmálum, næringu, lýðheilsu og félagslegum þáttum.
  • Landbúnaður sé í sátt við umhverfi og náttúru landsins, t.d. að komið sé í veg fyrir gróðureyðingu vegna ofbeitar.
  • Skilið verði alfarið á milli reksturs söfnunarstöðva og vinnslustöðva í mjólkuriðnaði.
  • Skapa hvata til lífræns búskapar.