Fjölbreytt atvinnulíf er leiðin að góðu og hamingjusömu samfélagi

Finna þarf nýjar leiðir til þess að tryggja öllum störf við hæfi og mannsæmandi líf

Það er eitt af grundvallarsjónarmiðum Samfylkingarinnar að sérhverjum einstaklingi verði tryggð skilyrði til að rækta hæfileika sína og nýta í þágu eigin velferðar, samfélags síns og komandi kynslóða. Atvinnutækifæri þurfa að vera fjölbreytt og vinnustaðir öruggir fyrir þá sem þar starfa. Girða þarf fyrir félagsleg undirboð og tryggja að réttindi og laun allra sem vinna hér á landi séu í samræmi við kjarasamninga og lög.

Mikilvægt er að tryggja fullorðnu fólki og fötluðu fólki menntunarkosti í framhaldsskólakerfinu. Jafnframt verði tryggð endurmenntun og starfsþjálfun til þess að auka sveigjanleika á vinnumarkaði og mæta sameiginlegum þörfum atvinnulífs og atvinnulausra fyrir nýsköpun í takti við þá hröðu tækniþróun sem á sér stað.

Samfylkingin leggur höfuðáherslu á virka atvinnustefnu sem miðar að því að tryggja að allir fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu á eigin forsendum. Stjórnvöld eiga að vinna með stéttarfélögum og öðrum aðilum vinnumarkaðarins að þróun og fjármögnun virkra vinnumarkaðsúrræða. Þar skal sérstaklega horft til menntunar- og starfstengdra úrræða og stuðningi við þá sem missa vinnuna. Þannig aukum við sveigjanleika á vinnumarkaði.

Samfylkingin leggur áherslu á:

  • Starfsþjálfunar- og menntunarúrræði fyrir atvinnulaust ungt fólk enda sérstök hætta á að langtímaatvinnuleysi skerði þátttöku þess á vinnumarkaði og í samfélaginu til frambúðar.
  • Að vinnustaðir leiti leiða til þess að bjóða hlutastörf fyrir fólk með skerta starfsgetu og að fólki verði tryggð aðlögun og stuðningur inn á vinnustað.
  • Að lögum um opinber innkaup verði breytt svo að opinberar stofnanir megi kaupa að hluta til vörur og þjónustu af svokölluðum vernduðum vinnustöðum.
  • Leitað verði leiða til þess að útrýma valdníðslu, kynbundinni og kynferðislegri áreitni á vinnustað.
  • Sveigjanleg starfslok
  • Að atvinnuleysisbætur fylgi þróun lágmarkslauna.