Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar, hún tryggir stöðugleika og beitir skattkerfinu til tekjujöfnunar

Í jafnaðarsamfélagi nútímans helst sterk velferðarþjónusta í hendur við traust atvinnulíf sem hvílir á kröftugri menntastefnu

Heilbrigt efnahagslíf

Grunnur góðs efnahags og lífskjara almennings í velferðarríkinu hvílir á arðsömu atvinnulífi, skilvirku mennta- og velferðarkerfi og verðmætasköpun sem byggir á hugviti og hagnýtingu landsins gæða í þágu alls almennings. Hagkerfið á að vera opið fyrir innlendum og erlendum fjárfestingum og allar atvinnugreinar eiga að búa við agað markaðsfrelsi þar sem heilbrigð samkeppni er tryggð. Hið opinbera á að reka heilbrigðisþjónustu og menntakerfi fyrir alla sem stenst samjöfnuð við það besta sem gerist í heiminum.

Samfylkingin vill byggja upp samfélag jafnaðar þar sem öflugt opinbert velferðarkerfi færir öllum mannsæmandi líf og tækifæri til að þroska ólíka hæfileika sína með mannréttindi sem grunnstef. Samfylkingin vill að fullt gjald fyrir auðlindir renni til þjóðarinnar til að fjármagna samneysluna. Nýting auðlinda þarf því bæði að vera arðsöm og sjálfbær, hvort sem er um að ræða fiskistofnana við landið eða hagnýtingu vatnsafls- og gufuvirkjana til frekari orkuvinnslu eða nýtingu annarra auðlinda sem Íslendingar eiga.

Aukin samkeppnishæfni og efling útflutnings gegnir lykilhlutverki í atvinnulífinu.

Menntun og verkkunnátta þjóðarinnar og umgjörð atvinnulífsins skipta mestu í þessu sambandi og þar á Ísland að vera í fremstu röð. Samfylkingin vill efla útflutning og fjölbreytta atvinnustarfsemi með stuðningi ríkisins við rannsóknir, nýsköpun, listir og skapandi greinar og að opið sé fyrir fjárfestingar innlendra og erlendra aðila í þjónustu og framleiðslu á sjálfbærum grunni.

Samfylkingin leggur áherslu á:

  • Stemma verði stigu við möguleikum einstaklinga sem leika þann leik að stofna fyrirtæki, keyra þau í þrot og hefja reksturinn að nýju á nýrri kennitölu.
  • Gefa verði almenningi tækifæri á að fjárfesta í fyrirtækjum í nýjum og vaxandi atvinnugreinum og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum veiti slík fjárfesting skattafrádrátt.

Með þeim gagnkvæma markaðsaðgangi sem þegar er opinn og ykist með aðild að ESB og þeim auknu kröfum sem gerðar eru hvarvetna til hreinnar og ómengaðrar framleiðslu, opnast fiskvinnslu og landbúnaði Íslendinga ný tækifæri. Í landbúnaði er brýnt að snúa frá þeirri stefnu sem beinir bændum inn í miðstýrt framleiðslukerfi takmarkaðra framleiðsluþátta með kvótum. Þess í stað þarf að gera bændum kleift að sækja fram og gera hverjum og einum fært að einbeita sér að þeim búskap sem hæfni þeirra og kostir jarðnæðis á hverjum stað skapar þeim best kjör. Aðeins með þeim hætti er líklegt að sú nýsköpun sem er undanfari framfara verði að veruleika og að nýliðun verði nægjanleg í greininni.