Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar, hún tryggir stöðugleika og beitir skattkerfinu til tekjujöfnunar

Í jafnaðarsamfélagi nútímans helst sterk velferðarþjónusta í hendur við traust atvinnulíf sem hvílir á kröftugri menntastefnu

Heilbrigt efnahagslíf

Grunnur góðs efnahags og lífskjara almennings í velferðarríkinu hvílir á arðsömu atvinnulífi, skilvirku mennta- og velferðarkerfi og verðmætasköpun sem byggir á hugviti og hagnýtingu landsins gæða í þágu alls almennings. Hagkerfið á að vera opið fyrir innlendum og erlendum fjárfestingum og allar atvinnugreinar eiga að búa við agað markaðsfrelsi þar sem heilbrigð samkeppni er tryggð. Hið opinbera á að reka heilbrigðisþjónustu og menntakerfi fyrir alla sem stenst samjöfnuð við það besta sem gerist í heiminum.

Samfylkingin vill byggja upp samfélag jafnaðar þar sem öflugt opinbert velferðarkerfi færir öllum mannsæmandi líf og tækifæri til að þroska ólíka hæfileika sína með mannréttindi sem grunnstef. Samfylkingin vill að fullt gjald fyrir auðlindir renni til þjóðarinnar til að fjármagna samneysluna. Nýting auðlinda þarf því bæði að vera arðsöm og sjálfbær, hvort sem er um að ræða fiskistofnana við landið eða hagnýtingu vatnsafls- og gufuvirkjana til frekari orkuvinnslu eða nýtingu annarra auðlinda sem Íslendingar eiga.

Skattastefna og fyrirkomulag tilfærslna í skattkerfinu eru á meðal helstu grunnstoða réttláts velferðarþjóðfélags.

Öflun skatttekna og dreifing þeirra á að stuðla að jöfnuði og réttlæti, án þess að vera um of íþyngjandi fyrir samkeppnisstöðu atvinnulífs. Leggja þarf áherslu á að lækka skuldir ríkissjóðs og draga úr vaxtakostnaði sem nú er einn stærsti útgjaldaliður ríkisins. Styrkja verður stöðu ríkissjóðs með því að auka hlut almennings í þeirri auðlindarentu sem nýting fiskistofnanna og annarra takmarkaðra auðlinda í þjóðareign skapar. Þannig séu nýtingarleyfi veitt til hóflegs tíma í senn og á jafnræðisgrundvelli gegn fullu gjaldi. Einfaldasta leiðin til þess er útboð hinna takmörkuðu gæða.

Samfylkingin leggur áherslu á að fjármálastefna ríkisins styðji við:

 • Öflugt, skilvirkt og réttlátt skattkerfi til að fjármagna opinberan rekstur.
 • Réttláta tekjudreifingu og jöfnuð.
 • Húsnæðisstefnu til langs tíma.
 • Fjölbreytta atvinnustefnu.
 • Ábyrga efnahagsstjórn.
 • Félagslegan stöðugleika.
 • Umhverfismál.

Sköttum og gjöldum verði beitt sem hagstjórnartækjum og hvötum, m.a. til að efla fjárfestingu og nýsköpun, bæta lýðheilsu og draga úr mengun, í samræmi við markmið um eflingu græna hagkerfisins. Samfylkingin telur að velferðarkerfið eigi að fjármagna með almennri skattheimtu og halda beri beinni gjaldtöku notenda innan hóflegra marka. Samfylkingin leggur áherslu á að:

 • tekjuskattur sé þrepaskiptur og gegni þannig því tvíþætta hlutverki að vera tekjustofn fyrir ríkissjóð og stuðla að tekjujöfnun. Skoða þarf hvort ástæða sé til að auka bilið milli skattþrepa og fjölga þeim.
 • auka vægi tilfærslukerfa barna- og húsnæðisbóta sem auk persónuafsláttarins eru mikilvægustu tekjujöfnunartæki hins opinbera.
 • tryggja sanngjarnt framlag tekjuhærri hópa og stóreignafólks til samfélagsins í gegnum skattkerfið.
 • bein gjaldtaka af notendum velferðarþjónustunnar megi aldrei verða til þess að mismuna og hindra að fólk geti nýtt sér þjónustuna. Gjaldtakan nú er mun hærri á Íslandi en í nágrannalöndum okkar og er eitt form skattheimtu sem eykur ójöfnuð og dregur úr þrótti samfélagsins og almennri velsæld.
 • afmarka tekjur og gjöld sem ríkið innheimtir vegna takmarkaðra náttúrugæða og auðlinda í þjóðareigu, m.a. veiðigjalds og tekna af orkulindum, á sérstökum auðlindareikningi. Með því verði auðlindarentan gerð sýnileg almenningi.