Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar, hún tryggir stöðugleika og beitir skattkerfinu til tekjujöfnunar

Í jafnaðarsamfélagi nútímans helst sterk velferðarþjónusta í hendur við traust atvinnulíf sem hvílir á kröftugri menntastefnu

Heilbrigt efnahagslíf

Grunnur góðs efnahags og lífskjara almennings í velferðarríkinu hvílir á arðsömu atvinnulífi, skilvirku mennta- og velferðarkerfi og verðmætasköpun sem byggir á hugviti og hagnýtingu landsins gæða í þágu alls almennings. Hagkerfið á að vera opið fyrir innlendum og erlendum fjárfestingum og allar atvinnugreinar eiga að búa við agað markaðsfrelsi þar sem heilbrigð samkeppni er tryggð. Hið opinbera á að reka heilbrigðisþjónustu og menntakerfi fyrir alla sem stenst samjöfnuð við það besta sem gerist í heiminum.

Samfylkingin vill byggja upp samfélag jafnaðar þar sem öflugt opinbert velferðarkerfi færir öllum mannsæmandi líf og tækifæri til að þroska ólíka hæfileika sína með mannréttindi sem grunnstef. Samfylkingin vill að fullt gjald fyrir auðlindir renni til þjóðarinnar til að fjármagna samneysluna. Nýting auðlinda þarf því bæði að vera arðsöm og sjálfbær, hvort sem er um að ræða fiskistofnana við landið eða hagnýtingu vatnsafls- og gufuvirkjana til frekari orkuvinnslu eða nýtingu annarra auðlinda sem Íslendingar eiga.