Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar

Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Full atvinna er forsenda endurreisnar

Samfylkingin vill tryggja fulla atvinnu á Íslandi þannig að fólk sem getur unnið fái að vinna. Atvinnuleysi felur í sér sóun á starfskröftum sem samfélagið hefur ekki efni á og aldrei getur talist eðlilegt að vinnufúsum sé neitað um vinnu á meðan óleyst verkefni blasa hvarvetna við. Lykillinn að efnahagslegri endurreisn Íslands í kjölfar kórónukreppunnar er sá að nýta starfskrafta og vinnuvilja allra sem geta lagt hönd á plóg með því að fjölga störfum strax.

Brýnt er að beita afli hins opinbera af festu til að ráðast gegn atvinnuleysi með beinum og óbeinum hætti, einkum þegar fjárfestar og fyrirtæki halda að sér höndum. Stjórnvöld eiga að stuðla að sveiflujöfnun í hagkerfinu með örvandi aðgerðum í kreppu en aðhaldi á uppgangstímum.

Atvinnuleysi má aldrei verða viðvarandi meðal ákveðinna þjóðfélagshópa eða á tilteknum svæðum. Því vill Samfylkingin ráðast gegn atvinnuleysi af fullum þunga þar sem vandinn er mestur, svo sem meðal ungs fólks, innflytjenda, fatlaðs fólks, ófaglærðra og starfsmanna í þeim atvinnugreinum og landshlutum sem hafa orðið verst úti í kórónukreppunni.