Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum
Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar
Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum
Veldu málefni undir jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum
- Atvinna
- Atvinnulíf
- Atvinnustefna
- Byggðaþróun og samgöngur
- Fjármálakerfið
- Græn uppbygging
- Hagkerfi
- Hagstjórn
- Náttúruauðlindir
- Samkeppni og viðskipti
- Skattkerfið
- Verðmætasköpun
- Vinna og velferð
- Vinnumarkaðurinn
Framsækin atvinnustefna fyrir Ísland allt
Of lengi hafa stjórnvöld á Íslandi látið reka á reiðanum í atvinnumálum. Samfylkingin vill binda endi á lausatökin og boðar framsækna atvinnustefnu fyrir Ísland allt. Meginmarkmiðið er að styðja við fjölgun fjölbreyttra atvinnutækifæra um land allt sem bæta lífskjör og hæfa framboði vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði. Nýsköpun er leiðarstefið.
Stefnan grundvallast á fjölbreytni og jafnræði milli fyrirtækja og atvinnugreina og felur auk þess í sér græna uppbyggingu og umbyltingu atvinnulífs. Aukin fjölbreytni í atvinnulífi skýtur fleiri og sterkari stoðum undir íslenskt hagkerfi og útflutning, dreifir áhættu, dregur úr sveiflum og eykur stöðugleika. Jafnræði milli fyrirtækja og atvinnugreina spornar gegn því að einstök fyrirtæki eða atvinnugreinar verði allsráðandi á kostnað annarra og eykur þannig líkur á að sprotar í íslensku atvinnulífi fái færi á vaxa og dafna og verða að öflugum undirstöðugreinum í samfélaginu til framtíðar.
Þá vill Samfylkingin styðja af krafti við nýsköpun á öllum sviðum atvinnulífsins og ýta undir vöxt háframleiðnigreina sem byggjast á hugviti og sköpunargáfu, tækni og verkkunnáttu. Það er eðlileg þróun og æskileg að áhersla á nýtingu takmarkaðra náttúruauðlinda minnki smátt og smátt í nútímahagkerfi en þó má lengi auka framleiðni við nýtingu þeirra með framförum í þekkingu og tækni. Vaxandi vægi háframleiðnigreina í hagkerfinu og hagkvæmari nýting takmarkaðra auðlinda leiðir til hærri launa og skilar sér í bættum lífskjörum vinnandi fólks og almennings á Íslandi um ókomin ár.
Framsækin atvinnustefna fyrir Ísland allt verður að taka mið af markmiðum um byggðaþróun og skoðast í samhengi við framfarir í samgöngumálum og uppbyggingu menntastofnana í landinu. Skilgreina verður markmið atvinnu- og byggðaþróunar út frá styrkleikum og sóknarfærum í hverjum landshluta fyrir sig og eftir vinnusóknarsvæðum. Á þeim grunni geta einkaaðilar, stjórnvöld og stofnanir gert samstilltar áætlanir til lengri tíma og ráðist í uppbyggingu og fjárfestingar sem miða að settu marki. Þá er brýnt að hið opinbera nýti með markvissum hætti þau tækifæri sem felast í fjölgun starfa án staðsetningar.