Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar

Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Byggðaþróun og samgöngur

Samfylkingin lítur á Ísland sem eina heild þar sem sterkt höfuðborgarsvæði nýtur góðs af blómstrandi byggðum og bæjum um land allt og öfugt. Við viljum byggja höfuðborgarsvæði sem keppir við aðrar borgir í okkar heimshluta og er brimbrjótur Íslands í alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki. Á sama tíma viljum við nýta til fulls sérstöðu og sóknarfæri landsbyggðanna sem felast ekki síst í nánd við einstaka íslenska náttúru og gjöfular auðlindir. Þessi markmið eru ekki andstæð heldur styðja hvort annað.

Óábyrg stjórnmálaöfl ala á sundrungu milli borgar og byggða. Það gerir Samfylkingin ekki. Við vinnum að sameiginlegum hagsmunum og auknum samhljómi meðal landsmanna á grundvelli jafnvægis og gagnkvæmrar virðingar. Samfylkingin vill draga úr ójöfnuði og aðstöðumun í íslensku samfélagi. Það kallar á að við vinnum betur að því að tryggja jöfn tækifæri og möguleika allra landsmanna óháð búsetu, svo sem til atvinnu, menntunar, menningar og hvers kyns þjónustu.

Samfylkingin vill að markmið atvinnu- og byggðaþróunar verði skilgreind eftir styrkleikum landshluta og vinnusóknarsvæða og að út frá þeim verði mótuð framsækin atvinnustefna fyrir Ísland allt sem taki einnig til uppbyggingar menntastofnana. Þannig má vinna markvisst að farsælli byggðaþróun í landinu. Sveitarfélögin eru best til þess fallin að leiða vinnu af þessu tagi sjálf í nánu samstarfi innan landshlutasamtaka sveitarfélaga. Samfylkingin vill stuðla að frekari sameiningu sveitarfélaga og eflingu sveitarstjórnarstigsins.

Samgöngur skipta sköpum fyrir atvinnu- og byggðaþróun í landinu. Greiðar samgöngur um land allt eru lykilatriði við að tryggja öllum jöfn tækifæri óháð búsetu. Samfylkingin vill ráðast í stórátak í samgöngumálum til að styrkja Ísland sem heild með því að tengja landshlutana betur saman og stytta vegalengdir innan afmarkaðra vinnusóknarsvæða. Innan þéttbýlismarka þarf að gæta sérstaklega að samspili byggðar og samgangna, til dæmis vegna áhrifa umferðar á umhverfi og lífsgæði en ekki síður af því að skipulag byggðar ræður miklu um umferð og ferðavenjur.

Samfylkingin leggur áherslu á að fjölga valkostum og auka fjölbreytni í samgöngum, svo sem með því að efla almenningssamgöngur, flýta Borgarlínu, efla landsbyggðarstrætó og bæta alla aðstöðu og innviði fyrir gangandi og hjólandi í þéttbýli. Allt fellur þetta saman við markmið okkar um lýðheilsu og í loftslagsmálum. Þegar kemur að þjóðvegakerfinu viljum við gefa í til að vinna á uppsafnaðri viðhaldsþörf undanfarinna ára og auka nýframkvæmdir með hliðsjón af atvinnustefnu fyrir Ísland og áherslu á styttingu vegalengda og umferðaröryggi. Þá viljum við ráðast í markvissar aðgerðir til að hraða orkuskiptum í samgöngum á sjó, landi og í flugi. Vinna þarf að fjölgun alþjóðlegra fluggátta til landsins, tryggja að gæði varaflugvalla séu viðunandi og að viðhald og uppbygging á innviðum innanlandsflugs taki mið af uppbyggingu ferðaþjónustu.

Fjarskipti ráða miklu um lífsgæði, atvinnutækifæri og byggðaþróun. Samfylkingin vill efla innviði fjarskipta hvarvetna á landinu og tryggja að við njótum öll aðgangs að áreiðanlegu ljósleiðaraneti. Með því að nýta þau tækifæri sem felast í fjölgun starfa án staðsetningar geta stjórnvöld bætt lífskjör og um leið eflt byggðir um land allt.

Loks er brýnt að tryggja öryggi allra landsmanna í heimabyggð. Fjármagn sem rennur til Ofanflóðasjóðs á að nýta til hraðari uppbyggingar ofanflóðavarna og þá verður farsímasamband að vera tryggt á þjóðvegum landsins.