Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar

Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Samfylkingin lítur á verðmætasköpun samfélagsins sem samvinnuverkefni launafólks, atvinnurekenda og hins opinbera. Við viljum að afrakstur vinnu, framleiðslu og sjálfbærrar auðlindanýtingar dreifist með sanngjörnum hætti um samfélagið svo enginn líði skort og allir njóti jafnra lífstækifæra.

Það gerum við

●  með því að setja efnahagslegri starfsemi umgjörð og leikreglur sem tryggja að markaðir

virki í þágu fjöldans en ekki fárra,

●  með réttlátu skatt- og tilfærslukerfi sem jafnar lífskjör, spornar gegn því að auður safnist

á fárra hendur og tryggir afkomuöryggi allra,

●  með öflugri almannaþjónustu, velferðarkerfi og samfélagsstofnunum sem allir hafa

aðgang að og stuðla að menntun, heilbrigði, öryggi, vellíðan og velferð í víðum skilningi.

Lýðræðislegra atvinnulíf

Samfylkingin beitir sér fyrir atvinnulýðræði, valddreifingu í efnahagslífinu og auknum áhrifum vinnandi fólks á vinnuumhverfi sitt og stefnumörkun fyrirtækja og stofnana sem það vinnur hjá. Lýðræðisleg þátttaka starfsmanna á vinnustað og aðild þeirra að stjórnun fyrirtækja getur aukið traust og starfsánægju, dregið úr launabili og stuðlað að aukinni framleiðni og samkeppnishæfni atvinnulífs.

Ísland er eftirbátur ríkja á meginlandi Evrópu í þessum efnum. Því þarf að breyta. Fyrsta skrefið er að fylgja fordæmi Svía, Dana og Þjóðverja og binda í lög rétt starfsmanna stærri fyrirtækja til að velja sér fulltrúa í stjórn þeirra. Samfylkingin telur að lýðræðisvæðing atvinnulífsins og aukin áhrif og eignarhald starfsfólks í fyrirtækjum geti leitt til réttlátara samfélags og valdeflingar vinnandi fólks. Mikilvægt er að breytingar í þessa veru séu útfærðar í nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins.