Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum
Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar
Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum
Samfylkingin lítur á verðmætasköpun samfélagsins sem samvinnuverkefni launafólks, atvinnurekenda og hins opinbera. Við viljum að afrakstur vinnu, framleiðslu og sjálfbærrar auðlindanýtingar dreifist með sanngjörnum hætti um samfélagið svo enginn líði skort og allir njóti jafnra lífstækifæra.
Það gerum við
● með því að setja efnahagslegri starfsemi umgjörð og leikreglur sem tryggja að markaðir
virki í þágu fjöldans en ekki fárra,
● með réttlátu skatt- og tilfærslukerfi sem jafnar lífskjör, spornar gegn því að auður safnist
á fárra hendur og tryggir afkomuöryggi allra,
● með öflugri almannaþjónustu, velferðarkerfi og samfélagsstofnunum sem allir hafa
aðgang að og stuðla að menntun, heilbrigði, öryggi, vellíðan og velferð í víðum skilningi.
Veldu málefni undir jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum
- Atvinna
- Atvinnulíf
- Atvinnustefna
- Byggðaþróun og samgöngur
- Fjármálakerfið
- Græn uppbygging
- Hagkerfi
- Hagstjórn
- Náttúruauðlindir
- Samkeppni og viðskipti
- Skattkerfið
- Vinna og velferð
- Vinnumarkaðurinn
Vinna og velferð
Vinnan er undirstaða velferðar í samfélaginu. Hún er bæði réttur og skylda, því vinnufær einstaklingur á rétt á að vinna fyrir sér og sínum en ber einnig skylda til að leggja sitt af mörkum í þágu samfélagsins alls. Sterk almenn velferðarþjónusta og víðtækar tryggingar eru að sama skapi undirstaða vinnu í samfélaginu og lykilatriði í því að viðhalda hárri atvinnuþátttöku og kraftmikilli verðmætasköpun.
Með öflugri velferðarþjónustu og tryggingum hlúum við best að þeim verðmætum sem felast í mannauði samfélagsins. Það gerum við meðal annars með því að tryggja mannsæmandi framfærslu fólks sem finnur ekki vinnu við hæfi, tekst á við tímabundna erfiðleika eða býr við skerta starfsgetu og með því að styðja þá sem geta aftur til virkni og starfa sem fyrst.
Atvinnuleitendum skal veita hvatningu og viðeigandi stuðning þar til vinna við hæfi hefur fundist. Þá þarf ávallt að leita betri leiða til að sporna við því með fyrirbyggjandi aðgerðum að starfsgeta skerðist og aðstoða fólk eftir fremsta megni við að efla og endurheimta starfsgetu þegar þess gerist þörf. Í þeim efnum skipta forvirkar aðgerðir á sviði vinnuverndar sköpum og sömuleiðis virkar vinnumarkaðsaðgerðir, gott aðgengi að starfsendurhæfingu og hvers kyns námstengdum úrræðum, svo sem sí- og endurmenntun, framhaldsfræðslu, vinnustaðanámi og starfsþjálfun, auk áherslu á fjölbreytt atvinnutækifæri fyrir alla. Þar má nefna nægt framboð hlutastarfa fyrir fólk með skerta starfsgetu og sérhæfða vinnustaði fyrir fatlað fólk. Þessi nálgun er óaðskiljanleg norrænni jafnaðarstefnu og forsenda þess að við uppfyllum markmið okkar um að tryggja jafnan fulla atvinnu.
Samfylkingin vill stuðla að sem mestri atvinnuþátttöku meðal allra þjóðfélagshópa á Íslandi. Við viljum að innflytjendur fái vinnu við hæfi og njóti sanngirni á vinnumarkaði og að fólki sem fær hér alþjóðlega vernd bjóðist stuðningur og tækifæri til atvinnuþátttöku frá fyrsta degi.