Menntun og menning er afl til félagslegs hreyfanleika og forsenda skapandi samfélags

Samfylkingin vill efla menntun á öllum skólastigum og ávallt þurfi að gæta að því að jafnrétti til náms sé tryggt á Íslandi.

Bestu skólakerfi heims eru þau sem leggja áherslu á jöfnuð þannig að félagsleg og fjárhagsleg staða nemenda hafi ekki áhrif á möguleika þeirra til góðrar menntunar.

Nám fyrir alla sem vilja læra

Samfylkingin vill efla menntun á öllum skólastigum en sérstaklega þarf að efla háskólastigið og tækni-, starfs- og listnám í landinu. Mikilvægt er að skóla- og frístundastarf fari fram í húsnæði sem mætir þörfum nemenda og starfsfólks og að fjölgað sé fagmenntuðu starfsfólki í störfum með börnum. Skortur á kennurum er samfélagsvandi sem takast þarf á við. Nú um stundir er vandinn mestur í leikskólum en alvarlegur kennaraskortur í grunnskólum blasir einnig við.

Samfylkingin leggur áherslu á:

  • Að opinber fjárframlög á hvern háskólanema nái meðaltali Norðurlandanna, þannig að háskólamenntun standist samanburð við alþjóðlega háskóla í kennslu og rannsóknarstarfi.
  • Lögð verði áhersla á samstarf grunnskóla og framhaldsskóla um stuðning við nemendur m.a. með öflugri námsráðgjöf til að draga úr líkum á brotthvarfi þeirra úr framhaldsskólum
  • Fjölbreytta þjónustu við nemendur með ólíkar þarfir og tryggt verði til þess fjármagn, aðstaða og fagfólk innan skólakerfisins.
  • Starfsumhverfi og kjör kennara og starfsfólks skóla verði bætt.
  • Marghliða samstarf ríkis, sveitarfélaga og háskóla til að bregðast við bráðum kennaraskorti
  • Menntun á öllum skólastigum sé eins aðgengileg um allt land og kostur er og námsumhverfi ýti undir framsækið skólastarf.
  • Bjóða þarf öllum nemendum af erlendum uppruna upp á fyrsta flokks íslenskukennslu og veita þeim sem besta aðstoð við móðurmálskennslu.
  • Efla samstarf foreldra og skóla, m.a. um lestrarþjálfun, stuðning við börn með fjölþættan vanda og samtal um skjátíma barna.
  • Veita þarf fjárhagslegan og faglegan stuðning til að þróa skóla án aðgreiningar
  • Efla þarf rannsóknir á mennta- og æskulýðsmálum, en það er forsenda fyrir nauðsynlegri stefnumótun og þróun