Menntun og menning er afl til félagslegs hreyfanleika og forsenda skapandi samfélags

Samfylkingin vill efla menntun á öllum skólastigum og ávallt þurfi að gæta að því að jafnrétti til náms sé tryggt á Íslandi.

Bestu skólakerfi heims eru þau sem leggja áherslu á jöfnuð þannig að félagsleg og fjárhagsleg staða nemenda hafi ekki áhrif á möguleika þeirra til góðrar menntunar.

Menning og listir eru allt í senn vaxandi atvinnugrein, aflvaki nýsköpunar, undirstaða lífsgæða og uppspretta fyrir samkennd þeirra sem landið byggja. Kröftugt menningarlíf er spegill fyrir samfélagið og lifandi vettvangur þar sem tekist er á við samtímann. Í lýðræðisþjóðfélagi gegnir menningin því lykilhlutverki að hlúa að frjálsri hugsun, víðsýni og umburðarlyndi. Þess vegna er brýnt að öllum sé tryggður réttur til virkrar menningarþátttöku á eigin forsendum.

Framlag lista til samfélagsins verður ekki metið til fjár í sjálfu sér en hitt hefur margoft sýnt sig, að listamenn eiga ómetanlegan hlut í þeirri miklu landkynningu sem orðið hefur til þess að gera Ísland að einu helsta ferðamannalandi Evrópu. Fjölskrúðugt lista- og menningarlíf er einn helsti styrkur íslensks samfélags. Skapandi greinar eru mikilvæg burðargrein í íslensku atvinnulífi og ljóst að þeim fylgja ört vaxandi útflutningstekjur.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

  • Treysta sjálfstæði Ríkisútvarpsins með föstum tekjustofni sem rennur óskiptur til stofnunarinnar.
  • Listaháskóli Íslands komist í eitt húsnæði.
  • Styrkja stöðu íslenskrar tungu í stafrænum heimi.
  • Efla samkeppnissjóði í menningu og listum.
  • Treysta grundvöll kynningarmiðstöðva allra listgreina og hönnunar.
  • Treysta í sessi menningarsamninga landshlutanna.
  • Afnema virðisaukaskatt af bókum og grípa til aðgerða til að styrkja bókaútgáfu í landinu.
  • Að rannsóknir fari fram á efnahagslegum umsvifum skapandi greina og áhrif þeirra á atvinnuvegi landsins.
  • Að starfslaunasjóður listamanna verði efldur.
  • Að söfn og opinberum stofnunum verði gert kleift að borga listamönnum laun fyrir sköpun þeirra.