Menntun og menning er afl til félagslegs hreyfanleika og forsenda skapandi samfélags

Samfylkingin vill efla menntun á öllum skólastigum og ávallt þurfi að gæta að því að jafnrétti til náms sé tryggt á Íslandi.

Bestu skólakerfi heims eru þau sem leggja áherslu á jöfnuð þannig að félagsleg og fjárhagsleg staða nemenda hafi ekki áhrif á möguleika þeirra til góðrar menntunar.

Allir landsmenn eiga að hafa tækifæri til að afla sér fjölbreyttrar menntunar á framhaldsskólastigi, óháð búsetu, kyni, aldri og fötlun. Mikilvægt er að tryggja fullorðnu fólki menntunarmöguleika í framhaldsskólakerfinu. Starfsmenntun og starfsþjálfun þarf að vera aðgengileg til að auka sveigjanleika á vinnumarkaði og mæta sameiginlegum þörfum atvinnulífs og atvinnuleitenda fyrir nýsköpun í takti við hraða tækniþróun. Nú geta nemendur sem eru 25 ára eða eldri ekki verið öruggir um að fá inngöngu í framhaldsskóla og þeim vísað í dýrara einkarekið nám, ætli þeir að sækja sér aukna menntun og styrkja stöðu sína. Skortur á fagmenntuðum iðnaðarmönnum er vaxandi vandi hér á landi. Nauðsynlegt er að efla iðnnám sem og annað starfsnám á framhaldsskólastigi.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

  • Vinna enn frekar að því að gera iðn- og tækninám og annað starfsnám aðlaðandi og eftirsóknarvert í samstarfi við atvinnulífið, stéttarfélög og starf menntaskóla.
  • Kynna iðn- og starfsmenntun sem góðan og raunhæfan kost og meta raunfærni til námseininga.
  • Styrkja framhaldsskólana þannig að þeir geti mætt menntunarþörf á því landsvæði sem þeir starfa, hvort sem er í bóknámi eða starfsnámi óháð aldri, kyni eða félagslegri stöðu þeirra sem á námi þurfa að halda.
  • Gæta sérstaklega að því að skapa nýjum Íslendingum sem best skilyrði í menntakerfinu. Aðlögun þeirra innan skólakerfisins er forsenda fyrir aðlögun þeirra í íslensku samfélagi. Samfylkingin vill að allir eigi möguleika á því að styrkja stöðu sína með námi í opinbera skólakerfinu, óháð aldri, búsetu eða efnahag.
  • Stuðla að þróun dreifnáms og sveigjanlegs náms í því skyni að jafna aðgengi landsmanna að námi á öllum skólastigum.
  • Að framhaldsskólum verði gert kleift að þróa sí- og endurmenntun fyrir öll aldursskeið í takt við tækniframfarir nútímans.