Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

er lykilþáttur í samfélagssýn jafnaðarmanna

Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

Með námi við hæfi opnast dyr sem áður voru lokaðar. Góð menntun veitir lífsfyllingu og eflir sjálfstraust auk þess að skapa kjörskilyrði fyrir samfélag víðsýni og lýðræðis. Við tökumst á við stærstu viðfangsefni samtímans með þekkingu og vísindi að vopni.

Afkomuöryggi námsmanna

Samfylkingin vill efla hlutverk Menntasjóðs námsmanna sem félagslegs jöfnunarsjóðs og fyrirbyggja að styrkjakerfi lánasjóðsins gagnist fyrst og fremst þeim sem betur eru settir á kostnað þeirra sem helst þurfa á styrk að halda. Sjóðurinn á fyrst og fremst að vera styrktarsjóður í þágu námsmanna og styðja með sanngjörnum hætti við nemendur hvort sem þeir læra á Íslandi eða erlendis. Þetta er lykilatriði til að byggja megi upp kraftmikið þekkingarhagkerfi á Íslandi.

Samfylkingin vill að sá hluti námsstyrkja sem er lán hafi tveggja prósenta vaxtaþak, lágmarksnámsframvindukröfur verði 18 ECTS-einingar, alfarið verði fallið frá hugmyndum um markaðsvexti á námslán og áfram byggt á tekjutengingu afborgana. Frítekjumark námsmanna þarf að hækka og halda í við launaþróun í landinu og grunnframfærsla námsmanna ætti að miðast við dæmigert neysluviðmið velferðarráðuneytisins. Leiðrétta verður það ranglæti að námsfólki sé neitað um áunninn rétt til atvinnuleysistrygginga í námshléum þrátt fyrir að tryggingagjald sé innheimt af launum stúdenta eins og annarra.