Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

er lykilþáttur í samfélagssýn jafnaðarmanna

Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

Með námi við hæfi opnast dyr sem áður voru lokaðar. Góð menntun veitir lífsfyllingu og eflir sjálfstraust auk þess að skapa kjörskilyrði fyrir samfélag víðsýni og lýðræðis. Við tökumst á við stærstu viðfangsefni samtímans með þekkingu og vísindi að vopni.

Leikskólar – tungumálið er lykillinn að samfélaginu

Samfylkingin vill efla leikskóla sem fyrsta skólastigið með því að tryggja nægt framboð af leikskólaplássum, halda gjaldtöku í lágmarki og stefna að því að leikskólinn verði að fullu gjaldfrjáls. Brúa verður bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla með því að opna nýja leikskóla, reisa viðbyggingar við eldri leikskóla, fjölga ungbarnadeildum og fjölga leikskólarýmum hjá sjálfstætt starfandi leikskólum. Taka þarf með markvissum aðgerðum á mönnunarvanda leikskólanna og starfsskilyrðum þeirra sem þar starfa, einkum með tilliti til styttingar vinnuvikunnar. Aðlaðandi vinnuumhverfi er lykilatriði í farsælu leikskólastarfi og leið til að laða að faglært starfsfólk. Þá vill Samfylkingin styrkja nýsköpun og þróunarstarf í leikskólum og efla faglegan stuðning.

Mikilvægt er að veita stuðning við börn með sértækar þarfir tímanlega og faglega. Leikskólinn er í góðri stöðu til að koma auga á þörf barns fyrir stuðning sem getur þurft að vera margvíslegur og á fjölbreyttum sviðum. Samfylkingin leggur áherslu á að tryggja skilyrði í kerfinu fyrir snemmtæka íhlutun þannig að viðeigandi ráðgjöf og stuðningur sé fyrir hendi um leið og þess sér þörf.

Tungumálið er lykillinn að samfélaginu. Málörvun fyrir öll börn í leikskóla og sérstakur stuðningur í leikskólanum við máltöku og íslenskufærni barna með íslensku sem annað mál og fyrir börn með táknmál sem móðurmál er markviss leið til að stuðla að jöfnum tækifærum allra barna. Þá viljum við efla móðurmálskennslu fyrir börn sem hafa annað móðurmál en íslensku enda sýna rannsóknir fram á margþættan ávinning af slíkri kennslu. Í þeim efnum viljum við stuðla að góðri samvinnu leikskóla og foreldra og auka samstarf við samtök á borð við Móðurmál, eins og gert hefur verið í Reykjavík með góðum árangri.