Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

er lykilþáttur í samfélagssýn jafnaðarmanna

Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

Með námi við hæfi opnast dyr sem áður voru lokaðar. Góð menntun veitir lífsfyllingu og eflir sjálfstraust auk þess að skapa kjörskilyrði fyrir samfélag víðsýni og lýðræðis. Við tökumst á við stærstu viðfangsefni samtímans með þekkingu og vísindi að vopni.

Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri er lykilþáttur í samfélagssýn jafnaðarmanna. Með námi við hæfi opnast dyr sem áður voru lokaðar. Góð menntun veitir lífsfyllingu og eflir sjálfstraust auk þess að skapa kjörskilyrði fyrir samfélag víðsýni og lýðræðis. Við tökumst á við stærstu viðfangsefni samtímans með þekkingu og vísindi að vopni.

Samfylkingin beitir sér fyrir jöfnum tækifærum allra til náms. Menntastofnanir eiga að vera aðgengilegar, vettvangur þar sem enginn hópur er skilinn eftir og þar sem allir eiga möguleika á að rækta hæfileika sína og afla sér þekkingar á eigin forsendum og í þágu samfélagsins alls. Allt skólastarf á að byggjast á virðingu fyrir margbreytileika og mannréttindum.

Stíga þarf afgerandi skref til að efla geðheilbrigði innan menntakerfisins, svo sem með bættu aðgengi að sálfræðiþjónustu í skólum, félagsráðgjöf og sambærilegum stuðningi. Við viljum tryggja að allir nemendur sem ekki hafa íslensku að móðurmáli fái fyrsta flokks íslenskukennslu, frá leikskóla upp í háskóla, og aukna aðstoð við móðurmálsnám. Aðlögun innflytjenda innan skólakerfisins er áreiðanlegasta leiðin til virkrar þátttöku í íslensku samfélagi.

Við leggjum grunn að lífskjarasókn almennings til framtíðar með því að fjárfesta í fólki og fjárfesta í menntun. Samfylkingin boðar framsækna atvinnustefnu fyrir Ísland allt með áherslu á græna uppbyggingu, fjölbreytt atvinnulíf og vöxt háframleiðnigreina sem byggjast á hugviti og sköpunargáfu, tækni og verkkunnáttu. Þannig viljum við virkja auðlindir hugans í auknum mæli og þar leikur menntakerfið lykilhlutverk.

Samfylkingin vill sjá til þess að fólk á vinnumarkaði fái tækifæri til að uppfæra þekkingu sína og skipta um starfssvið. Vægi símenntunar verður sífellt meira á tímum örrar tækniþróunar og brýnt er að bjóða atvinnuleitendum endurgjaldslausa sí- og endurmenntun. Sú nálgun er samofin norrænni jafnaðarstefnu og forsenda þess að við uppfyllum markmið okkar í efnahags- og atvinnumálum.