Sterk almenn velferðarþjónusta

Velferðarsamfélag jafnaðarmanna byggist á almennum réttindum og skyldum sem gilda jafnt fyrir alla

Sterk almenn velferðarþjónusta

Samfylkingin vill halda uppi sterkri almennri velferðarþjónustu á Íslandi til þess að uppfylla kröfur okkar og hugsjónir um félagslegt réttlæti. Það er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga ásamt skipulögðum og heilbrigðum vinnumarkaði og ábyrgri hagstjórn sem miðar að fullri atvinnu.

Átak gegn undirmönnun í heilbrigðisþjónustu

Helsta úrlausnarefnið sem blasir við í íslenskri heilbrigðisþjónustu er viðvarandi mönnunarvandi sem kallar á skýra pólitíska forystu, langtímastefnumótun og samhæfðar aðgerðir þvert á ráðuneyti. Samfylkingin vill horfast í augu við þennan vanda og ráðast í löngu tímabært átak gegn undirmönnun í heilbrigðisþjónustu.

Markmiðið er að mönnun heilbrigðisstofnana samræmist umfangi þeirra og hlutverki og sé eins og best gerist í nágrannalöndum okkar. Til þess þarf fyrst og fremst að gera kjör og starfsaðstæður allra þeirra sem vinna á heilbrigðisstofnunum samkeppnishæf; draga úr vinnuálagi og bæta vinnuaðbúnað og starfsskilyrði þannig að faglært fólk kjósi að starfa í heilbrigðiskerfinu hér frekar en að starfa erlendis. Kortleggja verður þörf á fjölgun stöðugilda í heilbrigðisþjónustu fram í tímann og grípa til aðgerða í menntakerfinu til að sjá fyrir fullnægjandi framboði starfsfólks. Þá er brýnt styrkja þverfaglega teymisvinnu til að skipta verkum með sem skynsamlegustum hætti milli starfsfólks. Á opinberum heilbrigðisstofnunum skal stefnt að því að læknar og annað starfsfólk séu að jafnaði í fullu starfi en sinni ekki í miklum mæli öðrum störfum. Við viljum heilbrigðisþjónustu þar sem starfsfólkið á gólfinu þarf ekki að hlaupa of hratt og getur gefið sér nægan tíma til að sinna sjúklingum vel.