Sterk almenn velferðarþjónusta

Velferðarsamfélag jafnaðarmanna byggist á almennum réttindum og skyldum sem gilda jafnt fyrir alla

Sterk almenn velferðarþjónusta

Samfylkingin vill halda uppi sterkri almennri velferðarþjónustu á Íslandi til þess að uppfylla kröfur okkar og hugsjónir um félagslegt réttlæti. Það er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga ásamt skipulögðum og heilbrigðum vinnumarkaði og ábyrgri hagstjórn sem miðar að fullri atvinnu.

Jafnt aðgengi að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á

Krúnudjásnið í pólitískri arfleifð jafnaðarmanna er stefnan um eitt sameiginlegt heilbrigðiskerfi fyrir alla sem veitir fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Þetta er einn veigamesti einstaki þátturinn í sterkri almennri velferðarþjónustu. Grundvallaratriðið er jafnt aðgengi fyrir alla, óháð efnahag og búsetu, sem felur í sér að gjaldtöku sé ávallt haldið í lágmarki. Þessi stefna er ekki sjálfgefin en hefur verið lýðræðislegt val almennings á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum.

Markmið heilbrigðisþjónustunnar á að vera að sem flestir í íslensku samfélagi njóti hreysti og heilbrigðis og geti átt langt og gæfuríkt líf. Til að ná því marki er ekki síst mikilvægt að fyrirbyggja heilsuleysi eftir því sem það er unnt, svo sem með áherslu á lýðheilsu, forvarnir og heilsueflingu í daglegu lífi. Mest munar þó um öflugt heilbrigðiskerfi sem er vel skipulagt, vel fjármagnað og vel mannað. Þar sem slíkt kerfi grundvallast á jöfnu aðgengi verður alltaf að forgangsraða og leita leiða til að nýta fjármuni með sem hagkvæmustum hætti. Tilraunir til hagræðingar mega þó ekki leiða okkur í gönur. Stundum er eina leiðin til að auka gæði og bæta heilbrigðisþjónustu bara að gefa aukinn tíma, hlaupa hægar, til þess að hægt sé að sinna hjúkrun og umönnun á mannsæmandi hátt.

Samfylkingin hefur skýra sýn á hvað gera þarf til að vinna að umbótum á íslenskri heilbrigðisþjónustu til að hún uppfylli betur þau grundvallarmarkmið sem kerfið byggist á. Margt má gera betur. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að þróa og innleiða mælikvarða fyrir árangur og gæði heilbrigðisþjónustu til að geta metið betur hvernig kerfið mætir þörfum notenda og samfélagsins alls. Í öðru lagi þarf pólitíska forystu um að bæta allt skipulag og skerpa á verkaskiptingu milli hinna ýmsu eininga í heilbrigðisþjónustunni. Í þriðja lagi er löngu tímabært að ráðast í átak gegn undirmönnun og veita stórauknum fjárframlögum til heilbrigðismála, meðal annars til að bregðast við hlutfallslegri fjölgun aldraðra í landinu.

Svo mögulegt sé að tryggja fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á og raunverulega jafnt aðgengi fyrir alla, óháð efnahag og búsetu, þarf allt framangreint að koma saman: Vinna á grundvelli mælikvarða um gæði, aukin hagkvæmni með betra skipulagi, betri fjármögnun og betri mönnun.

 • Skerpum á verkaskiptingu í heilbrigðiskerfinu og hlutverkum hinna ýmsu eininga kerfisins. Mótum skýra stefnu þar sem tekin er afstaða til þess hvaða starfsemi er best komin hvar og hvaða þjónustu er best að kaupa að utan.
 • Samfylkingin vill að kjölfesta og meginþungi heilbrigðisþjónustunnar sé í opinberum rekstri.
 • Þegar einkaaðilar fara með rekstur smærri eininga í heilbrigðiskerfinu er algjör nauðsyn að hið opinbera axli ábyrgð á almannahagsmunum með því að vera upplýstur og gagnrýninn kaupandi þjónustunnar. Koma þarf á virku gæðaeftirliti með einkarekinni heilbrigðisþjónustu.
 • Ljúkum uppbyggingu nýs Landspítala á tilsettum tíma og tryggjum viðunandi fjármögnun þannig að spítalinn geti sinnt hlutverki sínu sem háskólasjúkrahús og í þágu landsmanna allra. Geðdeildir Landspítalans eiga þar ekki að vera undanskildar. Hefjum undirbúning uppbyggingar nýrra geðdeilda með nútímalegri nálgun að meðferð sjúklinga með geðrænar áskoranir að leiðarljósi. Gera þarf heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi til að gera nauðsynlegar breytingar á málaflokknum í þágu notenda þjónustunnar. Hugmyndafræði og innihald þjónustunnar þarfnast endurskoðunar samhliða endurskoðun á húsakostum.
 • Eflum heilsugæsluna enn frekar sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu um land allt. Aukum áherslu á þverfaglega teymisvinnu í heilsugæslunni.
 • Bætum upplýsingagjöf og leiðbeiningar til almennings um hvert eigi að leita þannig að þjónusta sé veitt á viðeigandi stað. Innleiðum í auknum mæli tilvísanakerfi þar sem við á.
 • Skilgreinum hlutverk Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri gagnvart öðrum veitendum heilbrigðisþjónustu og innleiðum mælikvarða um skilvirkni, gæði og árangur þjónustunnar.
 • Gerum stórátak í nýtingu tæknilausna til fjarlækninga.
 • Felum Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri að tryggja jafnt aðgengi landsmanna að
  sérhæfðri þjónustu með samningum við heilbrigðisstofnanir í öllum landshlutum, bæði með heimsóknum og fjarlækningum. Einkastofur lækna ættu líka að sjá íbúum dreifðari byggða fyrir þjónustu.
 • Léttum á útskriftarvanda í spítalaþjónustu með áherslu á stóraukna heimaþjónustu og með markvissri fjölgun hjúkrunarrýma, einkum á höfuðborgarsvæðinu þar sem biðlistar eru lengstir. Greiðslur til hjúkrunarheimila verða að samræmast kostnaði við rekstur þeirra.
 • Samfylkingin vill vinna áfram að aukinni samþættingu heilbrigðis- og velferðarþjónustu á vegum sveitarfélaga í nánu samstarfi við heilsugæsluna til að samstilla sem best þjónustu við aldraða og fólk með fötlun eða langvinna sjúkdóma, heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu.
 • Eflum sjúkraflutninga, bæði á landi og í lofti, og samræmum þjónustuna á landsvísu.
 • Vinnum gegn hvers kyns fordómum og mismunun gegn fötluðu fólki og öðrum
  jaðarsettum hópum innan heilbrigðiskerfisins.
 • Stuðlum að aukinni þekkingu heilbrigðisstarfsfólks og atvinnurekenda um sértæka
  sjúkdóma kvenna og bætta þjónustu vegna þeirra.
 • Aukum fræðslu um afleiðingar og einkenni ofbeldis í heilbrigðiskerfinu öllu og tryggjum
  viðeigandi viðbrögð.

Samfylkingin vill halda gjaldtöku fyrir almenna heilbrigðisþjónustu í lágmarki til að tryggja jafnt aðgengi allra óháð efnahag. Í því skyni er einkum brýnt að lækka hámarksgreiðslur. Greiðsluþátttaka sjúklinga er nokkuð meiri á Íslandi en í öðrum norrænum ríkjum og það sama á við um lyfjakostnað. Koma þarf á laggirnar einu greiðsluþátttökukerfi fyrir almenna heilbrigðisþjónustu, lyf, hjálpartæki og annan sambærilegan kostnað. Við viljum að slíkt kerfi nái til tannlækninga og tannréttinga barna auk sálfræðiþjónustu og geðlækninga enda á hvort tveggja að vera sjálfsagður hluti af hinni almennu heilbrigðisþjónustu. Bæta þarf aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og brýnt er að nýjum lögum um greiðsluþátttöku vegna sálfræðiþjónustu sé fylgt eftir í fjárlögum og sálfræðingum í heilsugæslu fjölgað. Þá viljum við tryggja að íbúar á hjúkrunarheimilum njóti fullnægjandi geðþjónustu og þverfaglegrar meðferðar.

Það er til mikils að vinna að skýra verkaskiptingu og bæta skipulag í heilbrigðiskerfinu svo tryggja megi hagkvæmustu ráðstöfun fjármuna hverju sinni. En það er bara önnur hliðin á vanda heilbrigðiskerfisins. Hin hliðin er sú að heilbrigðisþjónusta á Íslandi hefur árum saman verið undirfjármögnuð og undirmönnuð og þannig ekki getað uppfyllt væntingar og þarfir almennings.