Umhverfismál snerta okkur öll - Sjálfbært Ísland

Samfylkingin telur mikilvægt að byggja vöxt hagkerfisins á sjálfbærri þróun, með hagsmuni almennings og umhverfisins að leiðarljósi.

Vaxtartækifæri græna hagkerfisins verði nýtt til uppbyggingar atvinnulífs og útflutnings. Ímynd Íslands á alþjóðavettvangi taki mið af þessum áherslum. Stuðlað verði að líffræðilegri fjölbreytni á sjó og landi. Sveitarstjórnarstigið verði leiðandi í framkvæmd umhverfisstefnunnar með stuðningi ríkisins.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

• Verja auðlindir og lífríki hafsins fyrir súrnun sjávar og loftslagsvá.

• Nýting orkuauðlinda byggi á rammaáætlun og ósjálfbær nýting orku verði hindruð.

• Stefna Samfylkingarinnar um Græna hagkerfið verði leiðarvísir um aðgerðir í umhverfismálum.

• Horfið verði frá nýtingaráformum jarðefnaeldsneytis í íslenskri lögsögu.

• Stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendinu.

Við tökum loftslagsmálin alvarlega

Aðgerðir gegn loftslagsvá og súrnun sjávar eru bráðnauðsynlegar og þarf að grípa til aðgerða núna. Hættulegar breytingar á loftslaginu eru áhyggjuefni um allan heim, líka á Íslandi. Hröð súrnun sjávar á norðurslóðum verður að öllum líkindum alvarlegasti þáttur breytinganna á næstu áratugum. Aukin súrnun sjávar getur haft ógnvænleg áhrif á lífríki hafsins á norðurslóðum, jafnvel strax á næstu árum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir atvinnulíf og lífsskilyrði. Líkja má súrnun sjávar við þá ógn sem láglendum eyríkjum stafar af hækkun yfirborðs sjávar. Það eru ríkir þjóðarhagsmunir að íslensk stjórnvöld verði í hópi forysturíkja í loftslagsmálum á alþjóðavettvangi.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

  • Aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda verði fylgt eftir til fulls og tímasettum markmiðum náð í samræmi við Parísarsáttmálann.
  • Ísland leggi sitt af mörkum við hreinsun á höfum heimsins.
  • Endurskoða áætlunina með hliðsjón af nýjum markmiðum Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsríkjanna. Miða þarf aðgerðir við niðurstöður nýlegra rannsókna á súrnun sjávar og minnka notkun jarðefnaeldsneytis með orkuskiptum í bíla- og skipaflotanum.
  • Búa í haginn fyrir orkuskipti með hvatakerfi og breytingu skipulagslaga og byggingareglugerða.
  • Binda gróðurhúsalofttegundir í gróðri og jarðvegi með ræktun skóga, landgræðslu, vernd og endurheimt votlendis og nýjum leiðum á borð við niðurdælingu og framleiðslu metanóls úr koltvísýringi.
  • Auka nýsköpun sem snýr að hönnun nýrra umhverfisvænni umbúða.
  • Banna dreifingu eiturefna í jarðvegi.
  • Vöktun og rannsóknir á súrnun verði forgangsverkefni sem stjórnvöld eigi að beita sér fyrir á alþjóðavettvangi.
  • Vinna að orkuskiptum á sjó og landi.
  • Banna notkun á svartolíu sem eldsneyti á skipum innan íslenskrar efnahagslögsögu.