Umhverfismál snerta okkur öll - Sjálfbært Ísland

Samfylkingin telur mikilvægt að byggja vöxt hagkerfisins á sjálfbærri þróun, með hagsmuni almennings og umhverfisins að leiðarljósi.

Vaxtartækifæri græna hagkerfisins verði nýtt til uppbyggingar atvinnulífs og útflutnings. Ímynd Íslands á alþjóðavettvangi taki mið af þessum áherslum. Stuðlað verði að líffræðilegri fjölbreytni á sjó og landi. Sveitarstjórnarstigið verði leiðandi í framkvæmd umhverfisstefnunnar með stuðningi ríkisins.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

• Verja auðlindir og lífríki hafsins fyrir súrnun sjávar og loftslagsvá.

• Nýting orkuauðlinda byggi á rammaáætlun og ósjálfbær nýting orku verði hindruð.

• Stefna Samfylkingarinnar um Græna hagkerfið verði leiðarvísir um aðgerðir í umhverfismálum.

• Horfið verði frá nýtingaráformum jarðefnaeldsneytis í íslenskri lögsögu.

• Stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendinu.

Rammaáætlun er ætlað að skapa gagnsæja umgjörð og leikreglur um nýtingu og verndun náttúrunnar. Sáttin er um að sömu reglur gildi ávallt við mat á náttúrusvæðum gagnvart óskum um orkunýtingu.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

  • Uppfæra rammaáætlun og leggur áherslu á að Alþingi taki einungis ákvarðanir innan þess ramma sem faglegt matsferli markar, auk hliðsjónar af umsögnum frá almenningi.
  • Rammaáætlun taki líka til náttúrusvæða og kallist á við náttúruverndaráætlun.
  • Þróa áfram vinnubrögð í faglega matsferlinu, svo sem við mat landslagsheilda, minjavernd, tillit til flutningskerfa, mat á gildi svæða fyrir útivist og ferðaþjónustu, mat á áhrifum virkjunarframkvæmda á nærsamfélagið og mat á gildi svæða fyrir landbúnað og matvælaframleiðslu.
  • Koma í veg fyrir nýtingu náttúrusvæða til óafturkræfrar orkunýtingar.
  • Nýta aðra endurnýjanlega orkugjafa, s.s. vindorku, sjávarföll, sólarljós og setja vandaðar reglur sem taka mið af rannsóknum í málaflokknum