Umhverfismál snerta okkur öll - Sjálfbært Ísland

Samfylkingin telur mikilvægt að byggja vöxt hagkerfisins á sjálfbærri þróun, með hagsmuni almennings og umhverfisins að leiðarljósi.

Vaxtartækifæri græna hagkerfisins verði nýtt til uppbyggingar atvinnulífs og útflutnings. Ímynd Íslands á alþjóðavettvangi taki mið af þessum áherslum. Stuðlað verði að líffræðilegri fjölbreytni á sjó og landi. Sveitarstjórnarstigið verði leiðandi í framkvæmd umhverfisstefnunnar með stuðningi ríkisins.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

• Verja auðlindir og lífríki hafsins fyrir súrnun sjávar og loftslagsvá.

• Nýting orkuauðlinda byggi á rammaáætlun og ósjálfbær nýting orku verði hindruð.

• Stefna Samfylkingarinnar um Græna hagkerfið verði leiðarvísir um aðgerðir í umhverfismálum.

• Horfið verði frá nýtingaráformum jarðefnaeldsneytis í íslenskri lögsögu.

• Stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendinu.

Samfylkingin leggur áherslu á að innleidd sé eftir fremsta megni hugmyndin um hringrásarhagkerfi og minnkun sóunar

  • Unnið verði að samræmdri upprunaflokkun sorps við fyrirtæki og heimili fyrir landið allt.
  • Unnið verði að aukinni nýtingu lífræns úrgangs til landgræðslu og landbóta.
  • Plastúrgangur verði endurunninn og endurnýttur á landinu öllu.
  • Gert verði átak í að koma lagi á frárennslismál víða um land. Ríki og sveitarfélög taki höndum saman um fjárfestingu í viðunandi skólphreinsun og dælingu til að verja strendur Íslands og hafið kringum landið.