Velferðarstefna Samfylkingarinnar hvílir á félagslegu réttlæti og jöfnuði.

Við viljum jafna lífskjör og tryggja öllum tækifæri til að lifa með reisn.

Samfylkingin vill samfélag umburðarlyndis og samkenndar.

Jöfnuður og góð velferðarþjónusta fyrir alla eru grunnurinn að réttlátu samfélagi sem skapar öryggi og efnahagslegan stöðugleika. Með því að tryggja öllum aðgang að heilbrigðis- þjónustu, menntun og félagsþjónustu, óháð efnahag og búsetu, dregur það úr áhrifum stéttaskiptingar og veitir fleirum tækifæri til fullrar þátttöku í samfélaginu. Velferðarkerfið byggir á réttlátri skattheimtu og ábyrgri hagstjórn.

Verndum hag barna og fjölskyldna

Eitt mikilvægasta verkefni velferðarsamfélags er að vernda hag og stöðu barna og fjölskyldna þeirra. Tryggja þarf jafnan rétt og aðgengi að lífsgæðum sem í boði eru í samfélaginu, þar með talið að öll börn að 18 ára aldri hljóti menntun og tómstundastarf við hæfi án tillits til efnahags, fötlunar, móðurmáls, fjölskyldurgerðar eða félagslegrar stöðu.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

  • Hækka barnabætur og stefna skuli að því að þær verði ekki tekjutengdar og jafni stöðu barnafólks og þeirra sem ekki eru með börn á framfæri.
  • Sá tími sem foreldrar sem þurfa að dvelja langdvölum að heiman vegna þess að fæðingaþjónusta býðst ekki í þeirra heimabyggð, bætist við rétt til fæðingarorlofs.
  • Brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla.
  • Börn alist upp í heilsueflandi samfélagi og auðvelda þarf heilsusamlegt val.
  • Heilsusamlegar skólamáltíðir verði á viðráðanlegu verði og að þær verði gerðar gjaldfrjálsar í áföngum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga, eins og menntun barna.
  • Fjármagna úrræði, þ.e. betrunarþjónustu, svo börn verði ekki dæmd til að sitja í fangelsi og að þau njóti heildstæðrar þjónustu sem yrði samstarf félags, heilbrigðis og menntakerfis.
  • Vinna markvisst gegn öllu ofbeldi gegn börnum: líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi, einelti og vanrækslu. Leggja skal ríkari áherslu á barnavernd, fjölskylduráðgjöf, ofbeldisvarnir og aðstoð við þolendur, aðstandendur og gerendur.
  • Tryggja framfærslu og rétt barna sem misst hafa foreldra sína.
  • Tryggja fagleg, opinber úrræði fyrir ungt fólk og börn með margþættan félagslegan vanda, s.s. áfengis- og vímuefnavanda.
  • Hið opinbera vinni að styttingu vinnuvikunnar í þágu fjölskylduvænna samfélags.