Velferðarstefna Samfylkingarinnar hvílir á félagslegu réttlæti og jöfnuði.

Við viljum jafna lífskjör og tryggja öllum tækifæri til að lifa með reisn.

Samfylkingin vill samfélag umburðarlyndis og samkenndar.

Jöfnuður og góð velferðarþjónusta fyrir alla eru grunnurinn að réttlátu samfélagi sem skapar öryggi og efnahagslegan stöðugleika. Með því að tryggja öllum aðgang að heilbrigðis- þjónustu, menntun og félagsþjónustu, óháð efnahag og búsetu, dregur það úr áhrifum stéttaskiptingar og veitir fleirum tækifæri til fullrar þátttöku í samfélaginu. Velferðarkerfið byggir á réttlátri skattheimtu og ábyrgri hagstjórn.

Velferð óháð stéttarstöðu

Samfylkingin vill útrýma fátækt. Enginn á að þurfa búa við fátækt á Íslandi. Í dag er fátækt og ójöfnuður alvarlegt vandamál sem er viðhaldið með pólitískum ákvörðunum. Afleiðingar félags- og efnahaglegs ójafnaðar eru miklar og sérstaklega eru áhrifin slæm á börn. Krafa Samfylkingarinnar er að öllum verði gert kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu og ráðist verði gegn fátækt með öllum tiltækum ráðum.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

  • Ekkert barn búi við fátækt. Ríki og sveitarfélög eiga að vinna saman að því að búa vel að börnum og koma í veg fyrir að börn alist upp í fátækt.
  • Lækka þjónustugjöld vegna opinberrar þjónustu með jafnt aðgengi allra að leiðarljósi. Sjá til þess að þjónustugjöld hindri engan í að nýta sér þjónustu.
  • Bæta þarf kjör aldraðra og öryrkja í gegnum kerfi almannatrygginga og tryggja þeim mannsæmandi kjör.
  • Þróa nýjar leiðir til að finna lausn á vanda einstaklinga sem eiga hvergi heima.
  • Unnin verði aðgerðaáætlun um hvernig koma megi í veg fyrir fátækt þar sem horft verði til samspils húsnæðisstöðu, heilsufars og heimilisgerðar og hvernig við getum þétt öryggisnet velferðarkerfisins meðal annars með þrepaskiptu skattkerfi, persónuafslætti, almannatryggingum og ríkulegum barna- og húsnæðisstuðningi.
  • Sem liður í útrýmingu fátæktar verði unnið að sértækum stuðningi við fjölskyldur þar sem áherslan er á börnin og framtíð þeirra.
  • Tryggja fólki sem hefur ekki íslensku að móðurmáli aðgang (fólks af erlendum uppruna) að félagslegum kerfum hins opinbera og upplýsingum um réttindi þeirra og skyldur m.a. með túlka- og tungumálaþjónustu og fræðslu.