Velferðarstefna Samfylkingarinnar hvílir á félagslegu réttlæti og jöfnuði.

Við viljum jafna lífskjör og tryggja öllum tækifæri til að lifa með reisn.

Samfylkingin vill samfélag umburðarlyndis og samkenndar.

Jöfnuður og góð velferðarþjónusta fyrir alla eru grunnurinn að réttlátu samfélagi sem skapar öryggi og efnahagslegan stöðugleika. Með því að tryggja öllum aðgang að heilbrigðis- þjónustu, menntun og félagsþjónustu, óháð efnahag og búsetu, dregur það úr áhrifum stéttaskiptingar og veitir fleirum tækifæri til fullrar þátttöku í samfélaginu. Velferðarkerfið byggir á réttlátri skattheimtu og ábyrgri hagstjórn.

Öflugt, opinbert heilbrigðiskerfi

Samfylkingin vill öfluga, opinbera heilbrigðisþjónustu og vera í fremstu röð þjóða á því sviði. Þjónustan sé öllum aðgengileg óháð efnahag og búsetu og að kröfur um gæði, hagkvæmni og öryggi séu skýrar.

Mótun heildarstefnu um heilbrigðisþjónustu þar sem hlutverk hinna ýmsu þátta sé vel skilgreind. Áhersla verði lögð á heilsueflandi aðgerðir og forvarnir fyrir alla aldurshópa innan og utan stofnana. Markmið lýðheilsu verði leiðarstef.

Grunnþjónustan verði styrkt um allt land með eflingu heilsugæslu. Þar verði lögð áhersla á aukna þverfaglega teymisvinnu, m.a. sjúkra- og iðjuþjálfun, næringarráðgjöf, sálfræðiþjónustu, talþjálfun, félags- og fjölskylduráðgjöf. Sérfræðiþjónusta um allt land verði skipulögð í samstarfi við Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri. Gert verði átak í að auka aðgengi að meðferð og greiningu sjúkdóma með því að virkja nútíma tölvutækni (fjarþjónusta og fjarlækningar) á landsbyggðinni.

Þjónusta við aldraða og fólk með langvinna sjúkdóma færist til sveitarfélaga og byggist á nánu samstarfi við heilsugæslu. Forsenda þess er að þjónustan verði fullfjármögnuð af ríkinu. Þjónusta við aldraða, t.d. heimahjúkrun og heimaþjónusta verði samþætt og sameinuð á vegum sveitarfélaga. Tryggja þarf samstarf heimahjúkrunar við sérhæfða læknisþjónustu.

Sjúkraflutningar, bæði á landi og í lofti, verði efldir og þjónustan samræmd á landsvísu. Starfsemi heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni verði styrkt. Hlutverk heilbrigðisstofnana skilgreint og þeim tryggt rekstrarfé til lögbundinnar þjónustu.

Starfsemi og þjónusta Landspítala verði efld í þágu allra landsmanna og fjárveitingar endurspegli raunverulega starfsemi og þjónustu. Landspítala verði tryggð fjárveiting til að tryggja heilbrigðisstofnunum út á landi þjónustu sérfræðinga. Bygging Landspítala verði sett í forgang og staðið verði við tímaáætlun um framkvæmdina.

Samfylkingin leggur áherslu á:

 • Að lækka greiðsluþátttöku almennings vegna heilbrigðisþjónustu svo um munar og eitt greiðslu þátttökukerfi verði í sett á laggirnar fyrir almenna heilbrigðisþjónustu, lyf, hjálpartækja, kostnað vegna þjálfunar og sálfræðiþjónustu. Að auki eiga tannlækningar lífeyrisþega að vera niðurgreidd.
 • Að hámark kostnaðarþátttöku heimila vegna heilbrigðisþjónustu verði lækkað svo um munar og nái líka til lyfja, tannlækninga lífeyrisþega, hjálpartækja og sálfræðiþjónustu.
 • Að efla geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Sálfræðiþjónusta verði aðgengileg í skólum.
 • Virka þjónustustýringu (tilvísunarkerfi) innan heilbrigðisþjónustunnar.
 • Að auka upplýsingagjöf til notenda velferðarþjónustunnar, m.a. með sólarhrings símaþjónustu, sem verði kölluð hjálparlína, sem veitir símaráðgjöf, aðstoð, leiðbeiningu varðandi þjónustu, m.a. með miðlægri upplýsingaveitu.
 • Boðið verði upp á skaðaminnkandi úrræði á forsendum hvers og eins.
 • Að lagður verði lýðheilsuskattur á óholla matvöru.
 • Að lögð verði aukin áhersla á forvarnir og heilsueflingu á öllum aldursskeiðum.
 • Að tekist verði á við fíknisjúkdóma með áherslu á forvarnir, faglega meðferð og endurhæfingu.
 • Efla þekkingu heilbrigðisstarfsfólks og atvinnurekanda á sértækum sjúkdómum kvenna og auka þjónustu vegna þeirra.
 • Samfylkingin leggst gegn sölu áfengis í almennum matvöruverslunum.
 • Samfylkingin leggur til samvinnu aðila til að aðstoða, efla og virkja ungt fólk til þess að draga úr andlegri vanlíðan þeirra sem getur leitt til meiri geðrænna vandamála og sjálfsvíga.